Innlent

Páskaveðrið: Má búast við vetrarfærð yfir helgina

Birgir Olgeirsson skrifar
Margir munu leggja land undir fót um páskahelgina.
Margir munu leggja land undir fót um páskahelgina. Vísir/Stefán

Þeir sem hyggja á ferðalög milli landshluta um páskana ættu ekki að búast við sumarfæri. Rólegasta veður verður fram eftir vikunni en undir lok hennar er útlit fyrir að það kólni þegar gengur í norðan átt með snjókomu. 

Það mun því viðra vel til ferðalaga fram að föstudeginum langa en þá má búast við norðaustan átt, 10 til 15 metrum á sekúndu, snjókomu eða él fyrir norðan, en rigningu og slyddu sunnan til, einkum á Suðausturlandi.

„Leiðinlegasta veðrið eins og útlitið er núna er á laugardeginum. En útlitið er gott framan af vikunni fyrir þá sem ætla að ferðast,“ segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, sem hvetur fólk til að fylgjast með veðurspám ef það hyggur á ferðalög milli landshluta yfir páskahelgina.

Á páskadag og á öðrum degi páska er áfram spá norðan átt með éljagangi fyrir norðan en bjart sunnanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á miðvikudag:

Austan 3-8 og víða dálítil rigning eða skúrir. Hiti 2 til 8 stig.

Á fimmtudag:

Norðaustan og austan 5-15 m/s, hvassast á Vestfjörðum. Rigning eða slydda með köflum, en þurrt að mestu á SV- og V-landi. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst.

Á föstudag:

Norðaustanátt, víða 10-15 m/s. Snjókoma eða él fyrir norðan, en rigning eða slydda S-til, einkum á SA-landi. Kólnandi veður.

Á laugardag:

Norðlæg átt og snjókoma, en úrkomulítið sunnan heiða. Hiti 0 til 5 stig við S-ströndina, annars 0 til 5 stiga frost.

Á sunnudag:
Norðanátt og él, en þurrt og bjart veður S- og SV-lands. Kalt í veðri.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.