Innlent

Fjúkandi reiðir Framsóknarmenn og annað fólk

Jakob Bjarnar skrifar
Fjölmargir móðgast innilega fyrir hönd Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar og ríkisstjórnarinnar allrar.
Fjölmargir móðgast innilega fyrir hönd Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar og ríkisstjórnarinnar allrar. Myndin er samsett
Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra telja ómaklega að honum vegið eftir að fram kom að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar, geymi fjölskylduauðinn á Tortola og sé einn kröfuhafa föllnu bankana. Anna Sigurlaug setti fram kröfur um hálfan milljarð.

Fljótlega eftir að fréttir af þessu tóku að berast töldu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að þarna væri vegið illilega að konu Sigmundar Davíðs. Björn Valur Gíslason, varaformaður VG, tók málið upp á þingi í gær og fljótlega í kjölfarið ritaði Haraldur Einarsson þingmaður Framsóknarmannsins reiðiþrungna færslu á Facebook:

„Lágkúra þessa þings náðist í dag hjá varaþingmanni VG. Þar sem hann fór fram á að hlé yrði gert á okkar störfum meðan Forsætisráðherra myndi gera grein fyrir séreign konu ráðherrans og þeirra hjúskaparsáttmála!

Haraldur telur lágkúrulegt að fjármunir eiginkonu Sigmundar Davíðs, á Jómfrúreyjum, séu teknir til umfjöllunar.
Þetta er ástæðan fyrir litlu trausti á Alþingi, og Þetta er ástæðan fyrir litlum áhuga ungs fólks á stjórnmálastörfum.

Það er fráleitt að draga fjölskyldur stjórnmálamanna inn í átökin og botninn á málefnaumræðunni. Hafi skömm fyrir!“

Aumasta aumingja grey

Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar gætu ekki verið meira sammála Haraldi og gefa það óspart til kynna með því að „læka“ færsluna, svo sem Sigurður Már Jónsson upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, Matthías Imsland aðstoðarmaður Sigmundar, þingmennirnir Frosti Sigurjónsson og Vigdís Hauksdóttir og borgarfulltrúinn Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir svo einhverjir séu nefndir.

Björn Valur fær það óþvegið á vegg Haraldar og fyrsta athugsemdin, sem Kristinn Þór Jakobsson setur fram, gefur tóninn: BGV er aumasta aumingja grey sem til er, það sannar málflutningur hans allt ert til að komast í fjölmiðla, sem verða uppfullir af þessu næstu daga. Hann er líklega einnig að reyna fela eitthvað sem í gangi er innan VG eins og aumt gegni í skoðana könnunum og valda baráttu innan þingflokks ef þingflokk ætti að kalla, þetta er aumast lið sem best væri sem nota sömu ræðuna endur flutta. Aumt er þingið með þessa aula.“

Hann er bitur tónninn í þingmanninum Karli Garðarssyni sem víkur einnig orðum að Birni Vali og framgöngu hans, sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar telja heppilegan til að beina reiði sinni að:

„Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, hefur prívat og persónulega tekið að sér að losa VG við þau 2,9% sem vantar upp á að flokkurinn hverfi endanlega af þingi, miðað við nýja könnun MMR. Það er auðvitað metnaðarfullt og göfugt markmið og ber að þakka Birni fyrir það.“

Illt er að vera stjórnmálamaður

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður og formaður fjárlagnefndar, setur málið umsvifalaust í samhengi við meintar árásir sem Framsóknarmenn telja sig hafa mátt sæta, reyndar allt frá því að þessi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum og Sigmundur Davíð skrifaði fræga grein um „loftárásir“. Þar var tónn sleginn sem hefur verið einkennandi fyrir það hvernig gagnrýni á ríkisstjórnina hefur æ síðan verið lögð upp. Vigdís skrifar á Facebooksíðu sína:

Vigdís telur málið lýsandi fyrir það hversu ómaklega er sótt að stjórnmálamönnum.
„- ætli margir landsmenn spyrji sig ekki að því eftir daginn í dag - hvers vegna fólk leggi það á sig að vera í stjórnmálum?“

Þessi athugasemd Vigdísar fellur vel í kramið meðal vina hennar á Facebook, 200 manns hafa lækað og þeirra á meðal eru Björn Ingi Hrafnsson útgefandi, Ásmundur Friðriksson alþingismaður og Ágúst Borgþór Sverrisson blaðamaður.

Anna Sigurlaug er enginn hrægammur

Borgarfulltrúi Framsóknarmanna, Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, lætur málið einnig til sín taka á Facebook. Og hún vill útskýra fyrir fólki að fráleitt sé að kalla Önnu Sigurlaugu hrægamm, eins og einhverjir hafa spurt hvort verið geti? Guðfinna gengur þess ekki gruflandi að Íslendingar eigi Sigmundi Davíð margt og mikið að þakka:

„Til að vera hrægammur þarftu að hafa keypt kröfu í þrotabúin, sem hún gerði ekki. Þú ert ekki hrægammur ef þú áttir einfaldlega pening hjá/í bönkunum sem töpuðust. Ef ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefði fengið að ráða þá hefði hagur kröfuhafanna stórvænkast. Sigmundur fór hins vegar í það að rýra eignir kröfuhafanna sem mest og þar með eiginkonu sinnar í leiðinni í almannaþágu. Auðvitað er vinstri fólkinu illa við Sigmund, honum tókst það sem þeim tókst ekki. Hann sagði nei við Icesave, hann lækkaði skuldir heimilanna og hann sótti fé til kröfuhafanna.“

Guðfinna: Eiginkona Sigmundar Davíðs er enginn hrægammur.
Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður Sjálfstæðisflokks er meðal margra sem fagnar því að þessu sé haldið til haga.

Fávitaleg og óboðleg umræða

Reyndar eru ýmsir Sjálfstæðismenn sem vilja standa með Framsóknarmönnum í þessum ólgusjó sem þeir telja að stjórnarskútan sigli nú um; þannig skrifaði Orri Björnsson, Sjálfstæðismaður úr Hafnarfirði, harðorða færslu á Facebook. Honum blöskrar og fær vart leynt því hversu heitt honum er í hamsi.

„Núna ætla ég að verja Sigmund Davíð. Fávitaleg umræða um að kona hans sé hrægammur og því eigi hann að segja af sér. Er með öllu óboðleg. Það hefur ENGINN gengið harðar fram gegn kröfuhöfum. Ekki nokkur einasti maður! Það að reyna að gera hann tortryggilegan vegna þess að kona hans átti kröfur í þrotabúin er meira en ómerkilegt, það er beinlínis fávitalegt. Þeir sem gapa um þetta eins og uxar ættu að vera bundnir úti á bæjarhólnum frekar en að fá að gapa hér eins og fífl.  Ps. þeir peningar sem Anna Sigurlaug tapaði voru raunverulegir peningar, afrakstur ævistarfs föður hennar. Ekkert bingóbull.“

Þetta þykja þeim Sigurði Má, Rósu Guðbjartsdóttur, oddvita Sjálfstæðiflokksins í Hafnarfirði, Halli Hallssyni fjölmiðlamanni og fjölmörgum öðrum vel mælt.

Lágkúra þessa þings náðist í dag hjá varaþingmanni VG.Þar sem hann fór fram á að hlé yrði gert á okkar störfum meðan...

Posted by Haraldur Einarsson on 16. mars 2016

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, hefur prívat og persónulega tekið að sér að losa VG við þau 2,9% sem...

Posted by Karl Garðarsson on 16. mars 2016

Til að vera hrægammur þarftu að hafa keypt kröfu í þrotabúin, sem hún gerði ekki. Þú ert ekki hrægammur ef þú áttir...

Posted by Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir on 17. mars 2016

Núna ætla ég að verja Sigmund Davíð. Fávitaleg umræða um að kona hans sé hrægammur og því eigi hann að segja af sér. Er...

Posted by Orri Björnsson on 16. mars 2016

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×