Innlent

Borgarstjóri Chicago fékk lopapeysu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rahm virtist vera sáttur með lopapeysuna.
Rahm virtist vera sáttur með lopapeysuna. Mynd/Vísir
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti í dag Rahm Emanuel, borgarstjóra Chicago, íslenska lopapeysu.

Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair voru viðstaddir afhendinguna en tilefnið er að Icelandair hefur að nýju hafið beint flug til Chicago en Icelandair flaug til Chicago frá 1973 til 1988.

Ekki er ólíklegt að lopapeysan muni koma sér vel fyrir Emanuel enda gengur Chicago undir viðurnefninu Windy City eða hin vindasama borg. Emanuel þótti eitt sinn vera ein helsta vonarstjarna Demókrataflokksins og var hann innsti koppur í búri þegar Barack Obama var kjörinn Bandaríkjaforseti árið 2008.

Árið 2010 yfirgaf hann stöðu sína sem starfsmannastjóri Hvíta hússins til þess að bjóða sig fram til borgarstjóra Chicago. Var hann kjörinn árið 2011. Þykir hann valtur í sessi í augnablikinu en borgarbúar eru margir hverjir ekki ánægðir með störf hans. Í nýlegri könnum Chicago Tribune voru 63 prósent aðspurðra óánægðir með störf Emanuel sem borgarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×