Bíó og sjónvarp

Telja sig hafa komið í veg fyrir bjögun í hljóði í Ófærð

Birgir Olgeirsson skrifar
Stilla úr Ófærð.
Stilla úr Ófærð.
„Við teljum okkur vera komna yfir þetta,“ segir Ingvar Hreinsson, tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu, í samtali við Vísi um bjögun á hljóði í þáttaröðinni Ófærð. Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að einhverjir áhorfendur hefðu kvartað yfir því að þeir ættu í erfiðleikum með að skilja talað mál. Fór RÚV í málið ásamt framleiðslufyrirtækinu Reykjavík Studios, sem framleiðir Ófærð, og er talið að búið sé að finna lausnina.

Ingvar segir í samtali við Vísi að eftir að starfsmenn RÚV höfðu borið saman hljóðið á þáttunum eins og þeir koma frá Reykjavík Studios og hljóðinu í útsendingum RÚV var ákveðið að aðhafast.

„Það má færa rök fyrir því að það hafi í sjálfu sér ekkert verið bilað, við engu að síður ákváðum eftir að við heyrðum mun að taka ákveðið tæki úr sambandi sem var sett upprunalega til að takast á við hljóðmismun þegar  við vorum að hefja HD-útsendingar því þá var svo mikið efni að koma af spólum, ekki skrám. Það var ástæðan fyrir því að ákveðið tæki var sett inn í keðjuna hjá okkur og við greindum ákveðinn hljóðmun en það er ekki hægt að segja að það hafi verið einhver bilun, alls ekki,“ segir Ingvar.

Umrætt tæki stýrir styrk á hljóði í útsendingu. „Það hafði óæskileg áhrif á hljóð af ákveðnu tagi, ef hljóðið var mixað á ákveðinn hátt þá hafði það ýkt áhrif og það má segja að það hafi myndast ákveðin keðjuverkun. Það sem þurfti að gera hreinlega var að laga þetta hjá okkur og hjá Reykjavík Studios og í því samstarfi fengum við þetta til að virka og teljum okkur frá þriðja þætti vera búin að koma í veg fyrir þetta,“ segir Ingvar.

Vonast er til þess að þeir sem urðu varir við bjögun í hljóði þáttanna séu nú lausir við hana.

Fréttinni hefur verið breytt eftir að borist hafa frekari upplýsingar frá RÚV. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×