Innlent

Held að ég sé betri maður

Ólöf Skaftadóttir og Viktoría Hermannsdóttir skrifa
Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri hefur gert skurk í fjármálum leikhússins undanfarið ár. Hann situr einnig í framkvæmdastjórn SÁÁ og segir gagnrýni á samtökin oft drifna áfram af vanþekkingu.

„Í byrjun síðasta árs þurfti að taka erfiðar ákvarðanir. Það var halli á árinu 2014 sem við þurftum að bregðast við. Við drógum úr starfsemi fyrri hluta ársins, til að geta byrjað af krafti í byrjun síðasta leikárs. Það þurfti að hætta við tvær sýningar, sem er aldrei vinsælt. Tilfinningalega erfitt fyrir þá góðu listamenn sem stóðu að þeim sýningum og kostnaðarsamt líka. Það er ekki ókeypis að bakka út úr sýningum, en það var algjörlega nauðsynlegt,“ segir Ari.

Hann segir að frá síðasta hausti hafi reksturinn gengið vel. „Það hefur verið meira og minna uppselt á allar sýningar og af þeim sökum er komið upp ákveðið lúxusvandamál. Það er enn þá svo mikill gangur í sumum sýningum að við þurfum að færa til fyrirhugaðar frumsýningar. Þannig að af tvennu er auðveldara að starfa í meðbyr. Ég lít svo á að við séum í meðbyr hvað varðar aðsókn. Ég er glaður líka yfir því að við erum með alls konar sýningar. Mér finnst mikilvægt að Þjóðleikhúsið bjóði alla velkomna, þannig að allir eigi hlut í Þjóðleikhúsinu og það sé ekki elítustofnun. Trésmiðir og sjúkraliðar eigi jafn mikið erindi í Þjóðleikhúsið og bókmenntafræðingar í 101,“ segir hann.

„Við skiluðum rekstrarhagnaði á síðasta ári. Það er viðsnúningur en á móti kemur að frá hruni hefur verið skorið niður um þriðjung en ekkert slegið af kröfum. Það gerir okkur viðkvæmari fyrir sveiflum í aðsókn. Við þurfum að sækja okkur umtalsverða fjármuni í miðasölu og þurfum að vera markaðsdrifnari. Ef eitthvað klikkar sjáum við það strax í bókunum.“

Ekki bara fyrir elítuna

Þú talar um að Þjóðleikhúsið eigi ekki bara að vera fyrir menningarelítu, var það einhvern tíma þannig? „Stundum. Ég gleðst alltaf yfir því þegar fólk er að koma í fyrsta skipti í Þjóðleikhúsið. Þá gæti maður haldið að Þjóðleikhúsið hafi ekki verið að sinna þeim. Við verðum að passa að þessi stofnun verði ekki elítustofnun, ef við teljum að Þjóðleikhúsið eigi að hafa erindi við landsmenn. Ef við lítum á menningu og listir sem andlega næringu, þá bjóðum við stundum upp á of mikið af þverskorinni ýsu og of lítið af rjómakökum. Þá þarf maður að breyta.“

Ertu að reyna að höfða til allra? „Ég er að reyna, en er meðvitaður um listrænar kröfur sem gerðar eru til Þjóðleikhússins. Það er stundum sett strangasta mælistika sem er í vopnabúrinu á Þjóðleikhúsið. Mér finnst ekkert að því á meðan það er sanngjarnt.“

Er hægt að höfða til allra án þess að fórna listrænum standard?

„Þetta er veruleikinn minn og okkar, en mér finnst mikilvægt að leikhús sé vinsælt. Það er erfitt að koma á sýningu sem er langt á undan sinni samtíð eftir fimm ár. Það er ekki hægt, því tíminn er liðinn. Það er líka merkilegt að meirihluti af öllum íslenskum leikritum er bara sýndur einu sinni, það er sjaldgæft að verk séu tekin til sýninga aftur. Erlend verk sem eru sýnd hér eru yfirleitt rjóminn af leikverkum í heiminum. Verk sem er búið að setja upp oft, á meðan verið er að setja upp íslensk verk í fyrsta og eina skiptið. Stundum finnst manni ekki fullur skilningur á því. Þetta er um það bil það erfiðasta sem við gerum, að setja upp nýtt íslenskt leikverk. Ég segi leikverk því mér finnst ekki grundvallarmunur á leikriti sem er byggt á áður útgefnum t.d. skáldsögum eða sem er frumsamið frá grunni. Áhættan er hin sama.“

Ari segir að Þjóðleikhúsið sé að sinna sinni menningarlegu skyldu með því að taka upp hvort tveggja; ný íslensk verk og leikgerðir. „Mér finnst annað ekki útiloka hitt og margar af þeim merkilegustu sýningum sem hafa verið í íslensku leikhúsi undanfarin ár hafa verið byggðar á skáldverkum. Svo hafa komið frábær frumsamin ný íslensk verk. Mér finnst skrýtin umræða að annað sé réttara en hitt og ef við setjum upp íslenskt leikverk byggt á skáldsögu séum við að útiloka eða drepa leikskáldið. Það eru yfirleitt leikskáld sem gera leikgerðirnar, og margir hafa unnið jöfnum höndum frumsamin verk og gert leikgerðir,“ segir hann og nefnir Kjartan Ragnarsson sem dæmi.

Ekki karlaleikhús

Það hefur líka verið í umræðunni að þú hafir tilkynnt þrjú ný verk á komandi leikári – öll eftir karla. Þið hafið mætt talsverðri gagnrýni fyrir það. Vantar konur í Þjóðleikhúsið?

„Já, sú gagnrýni kom nú í Fréttablaðinu. Það eru þrjár bækur sem við erum búnir að kaupa en það er ekki þar með sagt að þær séu allar að fara upp á næsta ári eða það útiloki kaup á öðrum bókum. En svo ég taki nú bara sem dæmi eina þessara bóka, Gott fólk eftir Val Grettisson. Þetta er bók um ákaflega eldfimt efni sem er kynbundið ofbeldi. Mismunandi upplifun á slíku ofbeldi á milli geranda, sem er karlmaður, og þolanda, sem er kona. Hvar liggja mörkin? Þessi bók finnst mér tala inn í okkar samtíma. Leikstjórinn er kona, fastráðinn leikstjóri við húsið, Una Þorleifsdóttir. Skiptir það öllu máli að bókin er eftir karl? Sjáum til. Eigum við ekki að sjá hvernig sýningin verður?“ útskýrir Ari og heldur áfram.

„Til helminga eru konur og karlar listrænir stjórnendur í Þjóðleikhúsinu. Við erum að sýna verk núna um jólin þar sem eitt af höfuðkvenhlutverkum leikbókmenntanna, Blanche í Sporvagninum Girnd, er aðal, þetta er mjög femínískt verk vegna þess að þetta verk sýnir okkur mjög ljótan karlaheim þar sem konur eiga undir högg að sækja. Í hjarta Hróa hattar, hver er hetjan þar? Maríanna og svona getum við haldið áfram. Efnistökin skipta máli.“

Alvöru femínistar

Baltasar Kormákur hefur talað fyrir kynjakvóta í kvikmyndagerð, myndir þú vilja sjá eitthvað svipað í leikhúsinu? „Hið besta væri ef hlutfall karla og kvenna í lykilstöðum endurspegli hlutfall þeirra í samfélaginu. Karlar og konur eru jafn mörg. Þess vegna á þetta að vera til helminga. Ég held við séum ekki að fara að leiðrétta mörg þúsund ára mismunun með annars konar mismunun. Við eigum ekki að gera það.“

Þannig að þú ert ósammála Baltasar?

„Erum við ekki í kjörstöðu, ef þetta er til helminga? Er það ekki eins gott og það getur verið í þessum besta heimi allra heima? Er maður meiri femínisti ef maður mismunar til kvenna? Er maður þá alvöru femínisti? Er maður ekki hinn raunverulegi femínisti ef maður hefur þetta til helminga?“ Ara eru femínistar hugleiknir, en vill ekki tilheyra þeim hópi, „þó að Balti hafi komið út sem femínisti í viðtali hjá ykkur og ég stutt hann út úr skápnum sem slíkur. Ég spyr ykkur hver skilgreiningin er á femínisma og þið segið þeir sem vilja jafnrétti og vilja leiðrétta kynbundinn mun og já, ég vil það. En það er líka margt inni í þessu sem sumir leyfa sér að segja og ég get ekki aðhyllst, t.d. jákvæð mismunun. Mér finnst það erfið tilhugsun því hún er í eðli sínu mismunun.“

Tvíkeppni á markaði

Er samkeppni á milli leikhúsanna?

„Já, það er tvíkeppni á milli stóru leikhúsanna á höfuðborgarsvæðinu. Það er ánægjulegt hvað þau eru bæði öflug.

Andar köldu á milli?

„Nei, ekki held ég það. Stundum er léttur pirringur, sem er bara hluti af samkeppninni en við Kristín [innsk. Eysteinsdóttir] eigum fín samskipti, hún getur leitað til mín með einhverja hluti og ég til hennar.“

Alltaf fullur og hætti svo

Ari var framkvæmdastjóri SÁÁ og situr enn í framkvæmdastjórn samtakanna. „Ég fór inn í það starf því ég fór í meðferð fyrir meira en tíu árum. Ég hætti að drekka og fannst það merkilegt og ánægjulegt. Það hafði verið mikill dragbítur á lífi mínu. Ég taldi mér trú um að ég væri ekki mikil fyllibytta því ég fór í MBA-nám og var í tveimur vinnum. Ég var samt alltaf fullur og þetta var komið gott. Í framhaldi af því hafði ég áhuga á þessum fallegu og góðu mannræktarsamtökum sem nota bene eru stofnuð af körlum. Þannig að karlar hafa stundum gert eitthvað gott líka –þó við karlpeningurinn séum ábyrgir fyrir mörgu því versta í heiminum. Ég var svo seinna ráðinn framkvæmdastjóri SÁÁ og starfaði þar. Í kjölfar þess fór ég í meistaranám í hagfræði, heilsuhagfræði og gerði rannsókn á þjóðfélagslegri byrði áfengis og vímuefnaneyslu á Íslandi.“

Við rannsóknina fékk hann aðgang að viðtölum sem tekin voru við sjúklinga á Vogi. Viðtölin meta vanda sjúklinganna. „Þessi rannsókn tók á mörgum þáttum, refsikerfinu, heilbrigðiskerfinu og ég reyndi að meta þetta, og setja tölu – hvað kostar þetta allt saman?“

„En vegna þessa að við erum svo miklir femínistar í þessu viðtali, þá hafið þið áhuga á að vita að það er margt kynbundið inni í þessu, t.d. kemur fram að 56% kvenna sem koma í meðferð hafa orðið fyrir kynferðislegri misbeitingu yfir ævina og 13% karla. Við vitum að þegar maður neytir vímuefna hefur maður minni aðgang að æðri hlutum heilans, framheilanum þar sem hömlurnar eru og það dregur úr æðri hugsun. Fólk fer að hegða sér með prímitívum hætti og þá gerir það svona hluti frekar. Það er vel þekkt að menn beita aðra ofbeldi bæði kynferðislegu, líkamlegu og andlegu ofbeldi þótt þeir séu allsgáðir en það eru meiri líkur á að menn beiti því og verði fyrir því ef þeir eiga við vímuefnavanda að stríða.“

Aldrei þurft að vera hræddur

Inni í þessu voru tölur um konur sem leituðu á neyðarmóttöku vegna kynferðisbrota.

„Það var sláandi hvað stór hluti af konum, sem leituðu þangað, var ósjálfbjarga eða ofurölvi þegar brotið átti sér stað. Það er hræðilegt að hugsa til þess að þú þurfir sem kona að passa þig – en þú ert ófær um að gera það ef þú ert ofurölvi. Ég er hávaxinn og sæmilega þrekvaxinn og hef aldrei þurft að vera hræddur úti á lífinu en maður getur trúað að konur séu hræddar, bara að labba heim. Þetta er dapur raunveruleiki.“

Nú hefur verið í umræðu að eigi að kynjaskipta Vogi. Rótin hefur talað fyrir því að það sé ekki gott að konur og karlar séu saman í meðferð. Jafnvel eldri menn og yngri konur. Hver er þín skoðun?

„Ég held að það geti verið óheppilegt. En Vogur er spítali – það eru karla- og kvennastofur á öllum spítölum. Í tilfelli Vogs hafa menn verið að vinna að því að álmuskipta Vogi svo að konur séu sér, en hitt er annað mál – eigum við að koma í veg fyrir að bæði kynin borði saman? Fari á fundi saman? Stundum er þetta ekki gerlegt, út af fjármunum sem við höfum úr að spila. SÁÁ hefur tekið alvarlega tillit til þessarar umræðu. Nú eru uppi áform að byggja verulega við eftirmeðferðarstöðvar SÁÁ á Kjalarnesi og þar verði kynin algjörlega aðgreind í eftirmeðferðinni. Það er reyndar eftirmeðferð fyrir unga karla uppi í Dölum, en uppi á Kjalarnesi er Vík, þar sem eru konur og karlar sem eru eldri en 55 ára. Þá spyrjiði, af hverju 55 ára – eru þeir þá getulausir og hættulausir? Það er bara stærðarhagkvæmni. Það hefur verið sérstök kvennameðferð hjá SÁÁ lengi. Það er mikil aðgreining á milli kynja inni á Vogi og stundum er þessi umræða rekin áfram af ákveðinni vanþekkingu. Rótin er auðvitað að brýna menn til að gera betur. Menn eiga að hlusta á það.“

Ari segir upplifun kynjanna ólíka í meðferð. „Upplifun mín var sú að karlar væru brotnir því að þeir upplifðu að þeir næðu ekki þeim frama í lífinu sem þeir ættu að ná. Konur voru brotnar yfir að hafa brugðist fjölskyldu sinni. Þetta er alhæfing, þetta er auð­vitað miklu flóknara en þetta var myndin eins og hún blasti við mér. Ég er ekki heilbrigðisstarfsmaður – ekki ráðgjafi eða hjúkrunarfræðingur, læknir eða sjúkraliði, en svona sá ég þetta.“

Er börnum hætta búin á Vogi?

Svokölluð bangsadeild á Vogi hefur líka verið gagnrýnd, að ungt fólk eigi ekki að vera í meðferð með eldra fólki.

„Þar er aðgreining. Það er algjörlega lokuð deild. Þau borða sér, en þau fara út í reyk. Maður getur velt fyrir sér hversu miklar hömlur maður á að setja? Oft á tíðum þegar ungir krakkar eru að koma til meðferðar eiga þau erfitt með að lúta valdi. Þess vegna er mikilvægt að þau séu ekki læst inni. Þau myndu aldrei sætta sig við það. Krakkarnir geta farið út og eiga greiðari aðgang inn í meðferð aftur. Þetta er til þess að þau upplifi ekki þvinganir. Við getum líka hugsað, er þeim meiri hætta búin inni á Vogi en á Hverfisgötu? Ég held ekki. Ég held að SÁÁ sé að reyna að gera eins vel fyrir peningana og hægt er og hafi metnað til þess að standa sig . Það er þungbært fyrir meðferðarfólkið að sitja undir ásökunum um að það láti þetta eða hitt viðgangast. Það eru engin brot liðin á Vogi. Því miður er alls konar fólk sem kemur, þ.e.a.s., sem betur fer. Ekki er spurt um afbrotahegðun þeirra sem leggjast inn á Landspítala, enda eru þeir þangað komnir því þeir þurfa heilbrigðisþjónustu. Eigum við að neita fólki um heilbrigðisþjónustu?“

Ungt fólk er svo hvatvíst

Vantar ekki betri meðferðarúrræði fyrir þennan yngsta hóp?

„Ungt fólk er svo hvatvíst. Svo fljótt að jafna sig. Er að drepast úr desper­asjón og svo er aftur komin helgi. Þá telja þau sér trú um að þetta hafi ekki verið svo slæmt og fara aftur á kreik. Það er ekki misheppnað þó að takist ekki í fyrsta eða annað skipti að verða edrú. 80% þeirra sem koma inn á Vog koma þrisvar eða sjaldnar. Helmingurinn kemur einu sinni. Það er stór hluti af þeim sem koma til meðferðar sem nær árangri með tiltölulega litlu inngripi.“

Hvernig fór leikurinn og drykkjan saman?

„Ég komst að því að besta meðal við þynnku var að leika tvær barnasýningar. Mann langar til að grenja á meðan en þegar maður er búinn er maður búinn að hreinsa sig. Mér var sagt upp í Borgarleikhúsinu á endanum. Ég held maður missi sköpunargáfuna og getuna því maður er oft illa fyrirkallaður.“

Hann segir magnað að sjá leikhúsfólk koma til baka eftir að hafa hætt að drekka.

„Mér finnst ánægjulegt þegar þeir sem drekka of mikið fara í meðferð og koma aftur og hafa fengið gleðina. Eru endurnýjaðir í öllu sínu. Tölum um minn gamla sambýlismann, Baltasar. Við bjuggum einu sinni saman. Það var rosalegt. Konan mín var í námi í Danmörku og hann flutti inn. Við þurftum að fá særingamann til að hreinsa barnaherbergið þegar börnin komu aftur,“ segir hann hlæjandi og viðurkennir að sambúðin hafi verið skrautleg.

„Hann er hættur að drekka og þið sjáið hvað hann hefur blómstrað, orðinn stórkostlegur listamaður. Ég er nú ekki að líkja mér við hann en ég náði jafnvægi í líf mitt og gleði til starfa við að hætta að drekka.“

Hafði þetta áhrif á fjölskyldulífið?

„Já, ég held það. Ég held ég sé betri maður. Þegar alkóhólistinn er kominn á Vog eru fimm úti í bíl sem eru alveg búnir á því. Þetta liggur svo á fólki því við erum svo hrædd. Við eigum öll sögur um það hvað þetta getur farið hryllilega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×