Innlent

Píratar fara yfir 40 prósenta markið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata
Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata Vísir/Stefán
„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Bara takk fyrir traustið,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, um nýja skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Samkvæmt könnuninni mælast Píratar með tæplega 42 prósenta fylgi. Þetta er í fyrsta skipti sem flokkurinn fer yfir 40 prósent og yrði hann langstærsti flokkurinn á Alþingi. Í síðustu könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, sem gerð var dagana 10. og 11. nóvember, var fylgi Pírata 36,3 prósent.

Sjálfstæðisflokkurinn yrði næststærsti flokkurinn með 23,2 prósenta fylgi. Það er töluvert minna fylgi en flokkurinn mældist með í síðustu skoðanakönnun. Þá var fylgi hans 29,3 prósent. Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Vinstri grænir mælast núna á svipuðu róli, með um 10 prósenta fylgi. Björt framtíð hefur hins vegar ekki mælst lægri og er núna með 1,6 prósent.

„Það er athyglisvert að turninn í íslenskri pólitík er ítrekað að mælast með helmingi minna fylgi en Píratar,“ segir Birgitta. Það sé svo blaðamanna og stjórnmálafræðinga að spyrja af hverju fólk treysti Pírötum. „Af því að ég veit ekki af hverju. En maður verður auðmjúkur.“

Könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 var gerð þannig að hringt var í 1.158 manns þar til náðist í 801 mann dagana 26. og 27. janúar. Svarhlutfallið var 69,2 prósent. Þátttakendur voru valdir með lagskiptu slembiúrtaki úr þjóðskrá. Alls tók 56,1 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×