Innlent

Hafði áhyggjur af mönnunum um borð

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Flutningaskipið Hoffell kom til hafnar í Reykjavík síðdegis, en skipið varð vélarvana um helgina skammt undan Færeyjum. Varðskipið Þór dró það að landi.

Þegar skipið varð aflvana á sunnudaginn var það statt um 160 sjómílur suðvestur af Færeyjum. Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við að draga skipið til Íslands. Þegar skipverjar um borð í varðskipinu Þór fengu beiðnina voru þeir staddir úti fyrir Breiðafirði. Það tók varðskipið um 40 klukkustundir að komast að flutningaskipinu sem hafði þá rekið töluvert eða inn í írska efnahagslögsögu. „Það gekk bara mjög vel að taka skipið í tog. Við létum skipverja hafa hérna vatn í leiðinni og síðan erum við búin að sigla þetta heim,“ segir Sigurður Steinar Ketilsson skipherra varðskipsins Þórs.

Ferðin er lengsta ferð Þórs með skip í drætti. Ferð Þórs frá því beiðnin um aðstoð barst þar til skipið kom til Reykjavíkur tók 111 klukkustundir. „Maður hafði áhyggjur af mönnunum um borð. Hvernig aðbúnaðurinn var. Þetta er skip sem er aflvana. Það eru engar ljósvélar eða aðalvélar eða spil sem hægt er að nota til að hífa eins og búnaðinn okkar en þeir sögðu alltaf þegar við vorum að bjóða þeim, hvort það var vatn eða matvæli, að það færi bara vel um þá,“ segir Sigurður Steinar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×