Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur lögreglumanni á höfuðborgarsvæðinu, sem sat í gæsluvarðhaldi í byrjun árs, vegna gruns um brot í starfi. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur síðar í þessum mánuði.
Maðurinn, sem er á fimmtugsaldri, er sakaður um að hafa átt í óeðlilegum samskiptum við brotamenn. Tveir aðrir eru ákærðir í málinu, báðir á fertugsaldri, en samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur mönnunum ekki verið birt ákæran. RÚV greindi fyrst frá.
Lögreglumaðurinn var starfsmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og hafði starfað þar í nokkur ár. Maðurinn var grunaður um að hafa þegið peningagreiðslur frá brotamanninum, og var hann handtekinn eftir að ríkissaksóknari fékk upptöku af símtali milli hans og brotamanns.
Umræddur brotamaður er vel þekktur úr fíkniefnaheiminum og hafði verið til rannsóknar hjá lögreglu í lengri tíma, en þó aldrei setið inni. Hann hefur hlotið dóma fyrir fíkniefnalagabrot og brot á vopnalögum.
Lögreglumaður ákærður fyrir brot í starfi

Tengdar fréttir

Telur að persónulegur ágreiningur geti skýrt orðróm um meint brot fíkniefnalögreglumanns
Héraðssaksakónari segir ekkert benda til þess að lögreglumaður, sem sakaður var um að hafa átt í óeðlilegum samskiptum við brotamenn, hafi brotið af sér í starfi.

Blað brotið ef mútumál kæmist upp innan fíkniefnadeildar
Afbrotafræðingur segir lögreglu hér á landi ekki spillta á sama hátt og til dæmis víða í Bandaríkjunum. Aldrei hafi komist upp um óeðlileg fjártengsl milli lögreglu og fíkniefnaheimsins.

Lögreglumaðurinn ekki fengið að svara fyrir alvarlegu ásakanirnar
"Ég hef óskað eftir því að sakarefnið verði borið undir hann svo að það sé hægt að leysa þetta mál,“ segir Ómar Örn Bjarnþórsson, verjandi mannsins.