Innlent

Skipa eftirlitsnefnd með fjármálum íþróttafélaga

Benedikt Bóas skrifar
Hafnafjarðarliðin FH og Haukar mættust í vikunni. Félögin eru nú kominn með eftirlitsnefnd vegna fjármála sinna.
Hafnafjarðarliðin FH og Haukar mættust í vikunni. Félögin eru nú kominn með eftirlitsnefnd vegna fjármála sinna. Vísir/Ernir
Bæjarráð Hafnarfjarðar ákvað á fundi sínum í vikunni að stofna eftirlitsnefnd með fjármálum íþróttafélaga í bænum.

Töluvert hefur verið fjallað um fjármál íþróttafélaganna í bænum, FH og Hauka, nú síðast í byrjun desem­ber eftir að Haraldur L. Haraldsson bæjar­stjóri lagði fram minnisblað á fundi bæjarráðs þar sem kom fram að bærinn hefði greitt 138,8 milljónum hærri upphæð en áætlanir gerðu ráð fyrir vegna leigu á Risanum, knatthúsi FH-inga.

Á árunum 2007-2015 greiddi bærinn alls 207,2 milljónir kr. á verðlagi hvers árs vegna leigunnar.

Haraldur sagði í samtali við Fréttablaðið að kveðið sé á um nefndina í samningi á milli bæjarins og Íþróttabandalags Hafnarfjarðar. Hún hafi eitt sinn verið starfandi en ekki verið endurvakin á þessu kjörtímabili.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi segir að nefndin verði skipuð utanaðkomandi fagaðilum.

„Það eru miklir hagsmunir í húfi. Bærinn er að veita miklum peningum inn í íþróttafélögin á hverju ári og það er eðlilegt að það sé fagleg eftirlitsnefnd að störfum og hún verði skipuð fagaðilum.

Þá er allt uppi á borðum og allir ársreikningar eru vel yfirfarnir og gegnsæi því það eru miklir hagsmunir. Það er eðlilegt að í svona stóru bæjarfélagi með virkt íþróttalíf sé eftirlit.“

Rósa segir að bæjarfélagið hafi unnið mikið starf í að endurskipuleggja allan rekstur. Meðal þess sem var skoðað voru greiðslur til íþróttafélaga.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×