Enski boltinn

Messan: Arsenal þarf alvöru markvörð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gengi Arsenal var til umfjöllunar í Messu Guðmundar Benediktssonar á Stöð 2 Sport í gær en gestir hans voru Arnar Gunnlaugsson og Þorvaldur Örlygsson.

Arsenal er í þriðja sæti deildarinnar með 60 stig og þrátt fyrir gott gengi að undanförnu reikna fáir með því að það blandi sér að alvöru í titilbaráttuna á lokaspretti tímabilsins.

Arsenal vann sinn sjötta deildarsigur í röð um helgina og útlit fyrir að liðið tryggi sér þátttökurétt í Meistaradeildinni enn eitt árið.

Liðið féll þó úr leik í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og virðst að mati Messumanna vanta aðeins upp á til að geta tekið næsta skref.

„Það eru þessi litlu smáatriði. Markvörðurinn er ekki nógu traustvekjandi, til dæmis,“ sagði Arnar. „Það eru ákveðnir „póstar“ í þessu liði sem gera það að verkum að þeir ná bara ekkert lengra.“

Þorvaldur tók í svipaðan streng. „Ef Arsenal hefði keypt mjög góðan markvörð í sumar sem myndi hjálpa liðinu að halda ró allan leikinn - væru liðið þá komið lengra? Ég hugsa það.“

„Hefur Arsenal verið með alvöru markvörð síðan að David Seaman var þarna í rólegheitum. Það þurfti varla að þvo búninginn hans eftir leiki.“

Arsenal keypti Kólumbíumanninn David Ospina í sumar og hann hefur varið mark liðsins á tímabilinu ásamt Pólverjanum Wojciech Szczesny.

Umræðuna alla má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×