Innlent

Maður lést á Hverfisgötu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá umræddu húsi á Hverfisgötu. Myndin er frá vettvangi hnífstunguárásarinnar í nóvember.
Frá umræddu húsi á Hverfisgötu. Myndin er frá vettvangi hnífstunguárásarinnar í nóvember. Mynd/Þorgeir Ólafsson
Maður sem sóttur var af sjúkraflutningamönnum í hús á Hverfisgötunni í Reykjavík á föstudaginn er látinn. Lögregla og sjúkrateymi voru kölluð á vettvang að morgni föstudags en maðurinn var meðvitundarlaus þegar komið var að honum. Hann komst aldrei til meðvitundar á sjúkrahúsinu.

Mbl.is greinir frá því að fjórir karlmenn og ein kona, á aldrinum 21 til 36 ára, hafi verið yfirheyrð vegna málsins. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir fólkinu og því sleppt að skýrslutöku lokinni. Ekki liggur fyrir hvernig dauða mannsins bar að en ekki hefur tekist að ná tali af lögreglu um helgina þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Maðurinn var líffæragjafi og kom flugvél til landsins í dag til að sækja úr honum líffæri. Maðurinn var frá Litháen.

Hnífstunga í sama húsi í nóvember

Samkvæmt heimildum Mbl.is tengjast mennirnir fjórir og konan hnífstunguárás sem varð í sama húsi við Hverfisgötu í nóvember síðastliðnum þar sem Sebastian Andrzej Golab varð fyrir lífshættulegri hnífstungu.

Eins og frægt er orðið tókst að bjarga lífi Sebastian á ögurstundu á gjörgæsludeild Landspítalans en Tómas Guðbjartsson, sem kjörinn var maður ársins á Vísi í lok síðasta árs, framkvæmdi aðgerðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×