Innlent

Sömu einkennin hjá vitnum og þolendum

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Börn sem verða fyrir ofbeldi eða verða vitni að því á heimili sínu upplifa meiri sálfélagslegan vanda en börn sem hafa ekki orðið fyrir ofbeldi.
Börn sem verða fyrir ofbeldi eða verða vitni að því á heimili sínu upplifa meiri sálfélagslegan vanda en börn sem hafa ekki orðið fyrir ofbeldi. Vísir
Börn sem verða vitni að líkamlegu ofbeldi á heimili sínu sýna sömu einkenni kvíða og þunglyndis og börn sem sjálf hafa orðið fyrir ofbeldi. Þetta kemur fram í rannsókn í sálfræði eftir Lucindu Árnadóttur. Rannsóknin var hluti af meistararitgerð hennar.

Niðurstöður hennar voru kynntar á ráðstefnu á vegum Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands sem fram fór í gær og fyrradag.

„Þessi börn sem tóku þátt í rannsókninni sýndu margvíslega sameiginlega þætti og fjöldi erlendra rannsókna hefur greint sem áhættuþætti ofbeldis gegn börnum,“ segir Lucinda.

Niðurstöðurnar voru unnar upp úr gögnum sem safnað var meðal barna sem sóttu hópmeðferð sem starfrækt var á vegum Barnaverndarstofu. Börnin sem voru í meðferðinni höfðu annaðhvort orðið fyrir heimilisofbeldi eða orðið vitni að því. Samkvæmt niðurstöðunum voru einkenni kvíða og þunglyndis mun algengari en hjá börnum sem höfðu ekki búið við ofbeldi á heimili auk þess sem þau sýndu ýmsan félagslegan vanda.

Lucinda Árnadóttir
Ekki hefur áður verið gerð rannsókn hérlendis á því hvaða áhrif það hefur á börn að verða vitni að ofbeldi á heimilinu. „Margir telja að ef barnið sjái ekki ofbeldið með berum augum þá viti það ekkert af því og þar af leiðandi hafi það engin áhrif á barnið, því að ofbeldinu er ekki beint gegn því. Börn geta orðið vitni að ofbeldinu með öðrum hætti. Þau geta heyrt rifrildi, öskur eða brothljóð. Svo skynja þau þetta óáþreifanlega andrúmsloft sem ofbeldið skapar. Þau geta líka séð afleiðingar ofbeldis eins og marbletti á móður eða aðra alvarlega áverka.“

Lucinda telur mikilvægt að skimað sé fyrir sálfélagslegum vanda þeirra barna sem hafa lent í þessum aðstæðum. „Erlendar rannsóknir sýna að geðrænn vandi barna spáir fyrir um geðrænan vanda á fullorðinsárum. Þess vegna viljum við alltaf koma í veg fyrir að börn þrói með sér sálfélagslegan vanda eins og kvíða og þunglyndi. Það er mikilvægt að þeir aðilar sem koma að þessum hópi barna skimi fyrir einkennum.“

Hún segir tvær stórar rannsóknir sýna að allt að 10-13% íslenskra barna hafi annaðhvort verið beitt ofbeldi eða orðið vitni að því á heimili sínu fyrir 18 ára aldur. „Niðurstöður mínar eru í samræmi við niðurstöður annarra erlendra rannsókna. Þær undirstrika alvarleg áhrif heimilisofbeldis á börn á Íslandi sem við það búa, hvort sem því er beint gegn þeim sjálfum eða öðrum á heimilinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×