Lífið

Mjög erfitt að fylla skarð Bjarkar á Airwaves

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Það eru eflaust margir hryggir yfir forföllum Bjarkar.
Það eru eflaust margir hryggir yfir forföllum Bjarkar. Vísir/Getty
Aðstandendur hátíðarinnar Iceland Airwaves leita nú allra leiða til þess að reyna að fylla skarð Bjarkar en tónlistarkonan tilkynnti í gær að af óviðráðanlegum ástæðum væri öllum tónleikum frá 15. ágúst út árið aflýst. Hún átti að koma fram á Airwaves í nóvember.

„Að sjálfsögðu reynum við að skoða allt og erum á fullu að leita að einhverjum sem getur komið í staðinn en það eru bara þrír mánuðir í þetta. Við viljum bæta fólki þetta upp með einhverjum hætti en jafnvel þó við kæmum með eitthvað rosalega vinsælt þá er það ekki Björk,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.

Grímur Atlason.
Ekki liggur fyrir hver ástæðan er fyrir afbókunum Bjarkar og ekki náðist í umboðsmann hennar við vinnslu fréttarinnar. 

„Þetta er mjög leiðinlegt í alla staði og ég veit að þetta er jafn leiðinlegt fyrir Björk og þetta er fyrir alla aðra. Aftur á móti er þetta ekki heimsendir, við höfum þurft að kljást við alls konar vesen en við vitum að það kemur engin önnur Björk í staðinn fyrir okkar Björk,“ útskýrir Grímur. 

„Svona gerist úti um allan heim. Ég átti einu sinni að sjá David Bowie en hann komst ekki og þá kom Slipknot í staðinn. Einu sinni átti ég að sjá Wu Tang-Clan en þeir lentu í skotbardaga og gátu ekki mætt. Við ætlum að gera þessa hátíð að bestu Airwaves-hátíðinni hingað til.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×