Innlent

Gestir Airwaves skilja eftir á annan milljarð króna hér á landi

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá tónleikum The War On Drugs á síðustu Airwaves hátíð.
Frá tónleikum The War On Drugs á síðustu Airwaves hátíð. vísir/ernir
ÚTÓN hefur líkt og síðastliðin fjögur ár gert könnun á eyðslu erlendra gesta á Iceland Airwaves. Könnunin var framkvæmd á síðustu hátíð og eru helstu niðurstöður þær að gestir eyða meira og gista lengur en síðustu ár.

Árið 2005 var gerð samnorræn könnun þar sem meðal annars var kannað hversu miklu fé erlendir gestir Iceland Airwaves-hátíðarinnar verðu á höfuðborgarsvæðinu á meðan á dvöl þeirra stóð. ÚTÓN endurtók könnunina árið 2010 í þeim tilgangi að kanna hvort útgjöld erlendra gesta hefðu breyst á þeim fimm árum sem liðin voru frá því að könnunin var gerð fyrst. Ákveðið var að halda uppteknum hætti og framkvæma könnunina aftur árin 2011 til og með 2014.

Helstu niðurstöður fyrir hátíðina 2014 eru þær að ferða-, gisti- og miðakostnaður hefur í heild lækkað. Hins vegar hefur erlendum gestum fjölgað á milli ára og gistinætur eru fleiri. Þetta skilaði sér í heildarneyslu alls 1.620 m.kr. sem er 420 m.kr. aukning frá árinu áður.

Einnig var reiknaður út tekjumargfaldari, en í hagfræði er hann notaður til að reikna út heildaráhrif þess þegar ný innspýting fjármagns kemur inn í lokað hagkerfi. Útreikningar könnunarinnar (tekjumargfaldarinn) eru byggðir á ritgerð Ævars Rafns Hafþórssonar til BA prófs í Hagfræði árið 2013: Hagræn áhrif Iceland Airwaves 2012. Margföldunaráhrif.

Þegar tekið er til greina margföldunaráhrif eru heildartekjur af erlendum gestum innan Reykjavíkur á bilinu 2,7 til tæplega 3 milljarðar króna. Þessum fjármunum er að mestu varið í veitingastaði og kaffihús, þar á eftir í afþreyingu ýmiskonar og í þriðja lagi í verslun. Tekið skal fram að eyðsla utan höfuðborgarsvæðisins og eyðsla íslenskra gesta er ekki tekin með í reikninginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×