Innlent

Áhugaflugmenn gagnrýna takmörkun á einkaflugi á Þjóðhátíð

Ingvar Haraldsson skrifar
Flugvél lendir á flugvellinum í Vestmannaeyjum.
Flugvél lendir á flugvellinum í Vestmannaeyjum. vísir/óskar friðriksson

Óánægja er meðal einka- og áhugaflugmanna með nýjar reglur Isavia um skipulag flugs til og frá Vestmannaeyjum yfir verslunarmannahelgi.

Samkvæmt reglunum verður afgreiðslutímum á flugvöllinn úthlutað svo flugtök og lendingar verði ekki fleiri en átta á hálftíma. Auk þess mun atvinnuflug hafi forgang.
Fram til þessa hefur flugturninn í Vestmannaeyjum séð um að dreifa álagi á flugvöllinn. „Það hefur bara gengið mjög vel,“ segir Valur Stefánsson, formaður Félags flugmanna og flugvélaeigenda.

Valur Stefánsson

Valur segir sambærilegt fyrirkomulag hafa verið reynt fyrir nokkrum árum en það hafi ekki gengið sem skyldi. „Það var ekkert af litlu vélunum sem fóru þá helgina,“ segir Valur.
Valur spyr hvers vegna sé verið að setja nýjar reglur nú þar sem álagið á flugvellinum hafi verið mun meira áður en Landeyjahöfn var tekin í notkun árið 2010. 

„Það er miklu minna af litlum vélum sem eru að fara núna eftir að Landeyjahöfn kom því að Herjólfur er að ferja obbann af þessu fólki í dag sem hann gerði ekki áður,“ segir Valur.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi ISAVIA, segir ástæðu breytinganna vera áhættumat sem gert hafi verið síðasta haust.

„Þar komu í ljós öryggislegir vankantar og það hefði verið óábyrgt af okkur að bregðast ekki við,“ segir Guðni.

Þá segir Guðni að eftir samdrátt í flugi eftir hrun hafi flug til Vestmannaeyja tekið að aukast á ný yfir verslunarmannahelgi.

Afgreiðslutíma á Vestmannaeyjaflugvelli um verslunarmannahelgi er úthlutað til þess að koma í veg fyrir að hættuástand skapist vegna of mikils álags.

„Bæði er það til þess að tryggja að ekki séu of margar flugvélar í einu í loftrýminu og vegna þess að stæði á flugvellinum eru takmörkuð.“

Guðni segir að miðað við greiningu á umferðinni ættu flugmenn og flugfarþegar að komast leiðar sinnar. „En mögulega gætu þeir þurft að hliðra tímum til þess að dreifa álaginu á flugvöllinn betur,“ segir Guðni.

Guðni bætir við að algengt sé að afgreiðslutímum sé úthlutað á álagstímum á flugvöllum. „Þetta á til dæmis við um Keflavíkurflugvöll en þar er afgreiðslutímum úthlutað á helstu álagstímum sólarhringsins,“ segir Guðni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.