Innlent

Bitinn af nýrri tegund bitmýs á Íslandi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Líkami Karls er allur undirlagður biti og segir hann kláðann óbærilegan. Auk þess er mikill hiti í bitunum.
Líkami Karls er allur undirlagður biti og segir hann kláðann óbærilegan. Auk þess er mikill hiti í bitunum. VÍSIR/ERNIR
„Rétt eftir að ég sofnaði fór ég að verða var við hryllilega stingi um allan líkama. Ég heyrði svo mjög skrítið suð en þrjóskaðist við að sofa þarna áfram,“ segir Karl Tómasson tónlistarmaður.

Hann lenti í því óhappi síðastliðna helgi að verða bitinn af nýrri tegund bitmýs á Íslandi, Ceratopogonidae.

Karl var ásamt fjölskyldu sinni í sumarbústað þeirra í Kjós við Meðalfellsvatn þegar hann var bitinn. „Við höfum átt þennan bústað í nokkur ár og aldrei orðið vör við þessi kvikindi.“

Líkami Karls er allur undirlagður biti og segir hann kláðann óbærilegan. Auk þess er mikill hiti í bitunum.

„Ég fann alveg að þetta var ekki venjulegt. Það var eitthvað mjög skrítið að gerast í rúminu hjá mér þessa nóttina,“ segir Karl og bætir við að árásin hafi verið svakaleg og að hann hefði betur komið sér á annan náttstað þegar hann byrjaði að finna stingina. 

„Mér stórbrá þegar ég vaknaði um morguninn og sá hvernig ég leit út. Þetta var skelfileg sjón,“ segir Karl sem í kjölfarið fór til læknis.

Læknirinn sagði að bitin væru eftir fló og gaf honum steralyf og krem. 

vísir/ernir
Karl birti í gær mynd af líkama sínum á Facebook og fékk í kjölfarið póst frá starfsmanni Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Starfsmaður stofnunarinnar greindi honum frá því að fleiri hefðu fengið slík bit á svæðinu sem bústaður Karls er á, í Kjósinni.

Stofnunin hefur nú undir höndum eitt eintak af bitmýinu Ceratopogonidae sem bíður nú frekari greiningar. Samkvæmt starfsmanni stofnunarinnar er bitmýið líklega af ættkvíslinni culicoides og ef svo reynist rétt er um nýja tegund á Íslandi. 

„Svo kom fram í bréfinu frá Náttúrufræðistofnun bitin frá þessu kvikindi séu verri en moskítóbit,“ segir Karl. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.