Innlent

Neflausa flugvélin komin heim

Stefan Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Elding sem gerði gat á trjónu þotu Icelandair hljóp eftir henni og skemmdi líka stél.
Elding sem gerði gat á trjónu þotu Icelandair hljóp eftir henni og skemmdi líka stél. Mynd/Brandon Boldenow
Flugvél Icelandair, sem eldingu laust í á leið til Bandaríkjanna fyrr í mánuðinum, er komin til landsins. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair Group, segir að beðið sé eftir sérhönnuðum varahlut í stélbúnað vélarinnar áður en hún fer aftur í almenna notkun.

Eldingin, sem laust í flugvélina, skildi eftir stórt gat á nefi hennar án þess að flugmenn tækju eftir því. Hún flaug því með gat á nefinu í átta tíma á leið sinni til Denver í Colorado í Bandaríkjunum.

Sjá einnig: Elding gataði nef flugvélar Icelandair

Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri flugslysasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir að engin rannsókn hafi farið af stað hér á landi en rannsóknarregla flugslysa miðar við að rannsókn á flugslysum fari fram í komulandi, í þessu tilfelli Bandaríkjunum. Nú er unnið að því að kanna hvort rannsókn á atvikinu sé hafin í Bandaríkjunum en Þorkell gerir ráð fyrir að málið sé ekki til rannsóknar þarlendis þar sem líklegast sé ekki um alvarlegt atvik að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×