Innlent

Sigríður Ingibjörg í formannsframboð

sveinn arnarsson skrifar
Árni Páll Árnason og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir munu berjast um formannsstólinn í Samfylkingunni. Katrín Júlíusdóttir er ein í framboði til varaformannsembættis flokksins.
Árni Páll Árnason og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir munu berjast um formannsstólinn í Samfylkingunni. Katrín Júlíusdóttir er ein í framboði til varaformannsembættis flokksins. fréttablaðið/daníel
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gefur kost á sér sem formaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem hefst í dag á Hótel Sögu. Árni Páll Árnason, sitjandi formaður flokksins, hefur því fengið mótframboð. „Ég væri ekki að bjóða mig fram til formanns ef ég tryði því ekki að ég gæti sigrað í atkvæðagreiðslunni,“ segir Sigríður Ingibjörg.

„Ég býð mig fram vegna þess að undanfarið hefur fólk komið að máli við mig og spurt hvort ég væri tilbúin að fara í formannsframboð. Mikið hefur gengið á í íslenskum stjórnmálum og flokkurinn ekki náð vopnum sínum þrátt fyrir augljós tækifæri. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég síðan að slá til, verkefnin sem fram undan eru fyrir íslenska jafnaðarmenn eru ærin,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Árni Páll segist ekki hræðast mótframboð Sigríðar Ingibjargar og vonast eftir góðum landsfundi. Hann segist ekki geta svarað því hvort óánægja með störf hans kalli á breytingar í æðstu stjórn flokksins. „Ég ætla ekki tjá mig um gerðir annarra eða velta vöngum yfir því af hverju Sigríður Ingibjörg býður sig fram. Þetta eru leikreglur lýðræðisins og ég hræðist ekkert í íslenskum stjórnmálum og hef aldrei gert,“ segir Árni Páll. „Samfylkingin er byggð sem fjöldahreyfing. Ég hef í minni formannstíð lagt mig fram um að tryggja að Samfylkingin hafi breiða ásýnd og rúmi ólík sjónarmið svo hún geti verið áfram burðarafl í stjórnmálunum.“

Sigríður Ingibjörg segir flokkinn ekki hafa náð vopnum sínum eftir erfiðan tíma á síðasta kjörtímabili. „Flokkurinn verður að ná sér á strik eftir kosningaósigurinn árið 2013.“

Árni Páll segir miklar hræringar í íslenskum stjórnmálum. Flokkurinn undir hans stjórn hafi verið að ná til baka fylgi frá kosningum þrátt fyrir ólgusjó. „Samfylkingin hefur verið að bæta við sig fylgi frá kosningum og er að mælast með fimmtíu prósent meira fylgi en þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×