Innlent

Felldu tillögu um bólusetningar

viktoría hermannsdóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir lagði tillöguna fram á fundi borgarstjórnar í gær.
Hildur Sverrisdóttir lagði tillöguna fram á fundi borgarstjórnar í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
Borgarstjóri segir tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að óbólusett börn fái ekki leikskólapláss í Reykjavík vera vanhugsaða og of róttæka. Þetta kom fram á borgarstjórnarfundi í gær, þar sem tillagan, sem lögð var fram af Hildi Sverrisdóttur borgarfulltrúa, var felld af meirihlutanum.

Dagur sagði í umræðunni að hann væri talsmaður bólusetninga en það að banna óbólusettum börnum að ganga í leikskóla borgarinnar væri ekki rétt leið. Dagur vitnaði í svar sóttvarnalæknis við fyrirspurn Halldórs Auðar Svanssonar borgarfulltrúa um bólusetningar.

Í svari hans kemur fram að um 2% foreldra barna í borginni kjósi að láta ekki bólusetja börn sín. Telur sóttvarnalæknir að vandinn hér á landi sé ekki jafn mikill og talað hefur verið um í fjölmiðlum og að Íslendingar séu á svipuðum stað varðandi bólusetningar og nágrannaþjóðir okkar. Aðrir borgarfulltrúar í meirihluta voru sammála Degi, tillagan væri sprottin af góðu en of róttæk. Taldi Dagur að borgin gæti farið í samráð við Landlæknisembættið um að bæta þátttöku með því að fræða foreldra og styrkja innköllunarkerfi heilsugæslunnar sem sér um bólusetningar.

Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks eftir fundinn kemur fram að þeir harmi að meirihlutinn hafi hafnað tillögu þeirra og ekki hafi verið hægt að koma til móts við sjónarmið tillögunnar að neinu leyti með því að leggja ekki til að skóla- og frístundaviði verði falið að skoða hvaða aðgerðir væru tækar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×