Lífið

Platan verður óður til aldamótarapparanna

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Toggi Nolem í hljóðverinu.
Toggi Nolem í hljóðverinu. vísir/auðunn

„Ég hef verið að vinna í plötunni í tvö ár með hléum,“ segir Toggi Nolem. Á næstu mánuðum kemur frá honum rappplata. „Þetta er eitthvað sem ég hef alltaf ætlað að gera og er loksins að klára,“ segir Toggi.

Hann heitir Þorgils Gíslason en er ávallt kallaður Toggi. Þegar hann vinnur að tónlist gengur hann undir listamannsnafninu Nolem, að undanskildum þeim skiptum þegar hann tekur þátt í jólalagakeppni Rásar 2. Þá kallar hann sig Jólem en hann sigraði keppnina síðasta ár. Aðspurður um nafnið segir hann að honum hafi þótt það flott áður. Hann minni að það hafi verið fengið af gamalli Smashing Pumpkins-plötu.

„Ég byrjaði í Skyttunum og hef verið að spila með hinum og þessum síðan þá. Meðal annars Mafama og Forgotten Lores. Ég hef hins vegar ekki gefið neitt út síðan Illgresi kom út.“Á plötunni mun fjöldi gestarappara flytja lög eftir Togga. Þeirra á meðal eru fyrrverandi meðlimir Skyttnanna, Forgotten Lores auk 7Berg, Cell 7 og Kött Grá Pjé. „Ég klára plötuna í mars og í kjölfarið hefst ég handa við að koma henni út.“

Nafn plötunnar er enn óákveðið og verður líklega það síðasta sem verður ákveðið. „Ég vil tengja það við hipphoppið sem var í gangi í byrjun aldarinnar. Tónlistin á plötunni er fjölbreytt og kemur víða við en helst þó í hendur.“

„Það er mjög gaman að vinna með íslenskum röppurum. Þeir eru vel lesnir og maður getur lært mikið af þeim hvað þeir eru að hugsa og pæla. Að mínu mati eru þeir bestu textahöfundar landsins í öllum geirum,“ segir Toggi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.