Innlent

Framkvæmdir hefjast í sumar

heiða kristín helgadóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra telur brýnt að bæta úr lélegum húsakosti spítalans.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra telur brýnt að bæta úr lélegum húsakosti spítalans. FRÉTTABLAÐIÐ/Valli
„Okkur er ekkert að vanbúnaði. Það er öllum ljóst að Landspítalinn getur ekki búið mikið lengur við núverandi aðstæður, hvorki sjúklinganna né starfsfólksins vegna. Lélegur húsakostur er farinn að standa starfseminni fyrir þrifum en nú er tækifæri til að snúa vörn í sókn,“ segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.

Hann hefur falið nýjum Landspítala ohf. að hefja undirbúning útboðs á fullnaðarhönnun meðferðarkjarna á lóð Landspítalans við Hringbraut. Einnig á að ljúka fullnaðarhönnun sjúkrahótels, sem er langt á veg komin, og bjóða út verkframkvæmdir við gatna- og lóðagerð sjúkrahótels ásamt byggingu þess. Þær framkvæmdir munu hefjast í sumar.

„Sjúkrahótelið er okkur afar dýrmætt enda hefur þróun í meðferð sjúklinga á síðustu árum verið með þeim hætti að legutími er sífellt styttri, en þörf fyrir sjúkrahústengda þjónustu eykst. Mikilvægi meðferðakjarnans verður seint ofmetið enda mun hann efla öryggi til muna þegar við getum sinnt þörfum okkar veikustu sjúklinga undir sama þaki. Við erum afskaplega ánægð með þessa framvindu mála og hlökkum til að taka þátt í þessu uppbygingarstarfi,“ segir Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×