Lífið

Júlí Heiðar snýr sér að leiklist

SNÝR BAKI VIÐ SÖNGNUM Júlí Heiðar ætlar sér stóra hluti í leiklistinni.
SNÝR BAKI VIÐ SÖNGNUM Júlí Heiðar ætlar sér stóra hluti í leiklistinni.
„Þetta er önnur myndin sem ég leik í í fullri lengd, en hún kemur út næsta haust,“ segir Júlí Heiðar Halldórsson tónlistarmaður, sem fer með hlutverk í íslensku kvikmyndinni Webcam. Hann hefur nú snúið sér næstum alfarið að leiklistinni og var einn af átta sem hlutu inngöngu í leiklistardeild Listaháskóla Íslands.

Hann segir að það hafi alltaf verið draumurinn að snúa sér að leiklistinni. „Ég held að það hafi byrjað þegar ég fékk að leika í Syngjandi í rigningunni í Þjóðleikhúsinu þegar ég var 11 eða 12 ára. Þá bjó ég í Þorlákshöfn og það var nú ekki mikið um leikhús þar. Svo fékk ég tækifæri til að vera með í Mary Poppins í Borgarleikhúsinu og þá varð ekki aftur snúið,“ segir hann.

Í Webcam, sem fjallar um unga stúlku sem fer að hátta sig fyrir framan vefmyndavél, fer Júlí með hlutverk kærasta hennar, Breka. „Þetta var mjög skemmtilegt hlutverk, mjög sérstakur en skemmtilegur karakter,“ segir hann. Í haust hefur hann svo nám í leiklist í LHÍ en hann komst inn ásamt kærustunni sinni. „Ég hlakka bara mikið til og get ekki beðið eftir að byrja. Þetta verður skemmtileg lífsreynsla sem ég held að eigi bara eftir að styrkja sambandið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×