Innlent

Allt að 59% verndartollur á kartöflusnakki

sveinn arnarsson skrifar
Fjármálaráðuneytið óskar eftir umsóknum í tollkvóta á kartöflusnakki frá Noregi.
Fjármálaráðuneytið óskar eftir umsóknum í tollkvóta á kartöflusnakki frá Noregi. Fréttablaðið/Stefán
Háir tollar eru lagðir á kartöflusnakk sem kemur innflutt til landsins. Hins vegar eru engir tollar á snakk sem gert er úr maískorni. Örfáir aðilar á Íslandi framleiða kartöflusnakk og þá úr innfluttu hráefni.

Alls er 59 prósenta tollur lagður á snakk sem unnið er úr kartöflum og 42 prósenta tollur á snakk sem unnið er úr kartöflumjöli. Hins vegar er enginn tollur lagður á innflutt snakk sem unnið er úr maískorni.

Leiða má að því líkum að fyrst ekkert innlent fyrirtæki er á Íslandi sem framleiðir snakk úr maís þurfi ekki verndartolla til að verja innlenda framleiðslu. Hins vegar eru mjög fá íslensk fyrirtæki sem framleiða snakk, og gera það úr innfluttu hráefni.

Fjármálaráðuneytið auglýsti í gær eftir umsóknum um 15 tonna tollkvóta á kartöflusnakki sem upprunnið er í Noregi og er innflutt þaðan. Berist umsóknir um meiri innflutning en nemur auglýstum tollkvóta verður miðað við magn innflutnings hvers umsækjanda í fyrra. Tekið er fram að úthlutun tollkvótans er ekki framseljanleg.

Fram hefur komið í skýrslu starfshóps um tollamál á sviði landbúnaðar að tollar og gjöld fyrir tollkvóta eru hátt hlutfall verðs innfluttrar búvöru. Neytendur hagnist ekki á tollkvótum því þeir séu ekki nægilega rúmir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×