Innlent

Land tapast daglega því fjármagn skortir

Svavar Hávarðsson skrifar
Múlaá í skriðdal. Ræktað land er oft af skornum skammti og landbrot því tilfinnanlegur skaði.
Múlaá í skriðdal. Ræktað land er oft af skornum skammti og landbrot því tilfinnanlegur skaði.
Landgræðslan getur aðeins orðið við litlum hluta þeirra beiðna sem berast árlega um varnaraðgerðir gegn landbroti. Þrátt fyrir aðkallandi verkefni víða um land hafa fjárheimildir undanfarinna ára hvergi nærri endurspeglað þörfina.

„Menn eru að missa land í árnar á hverjum degi, allt í kringum landið,“ segir Sigurjón Einarsson, verkefnisstjóri hjá Landgræðslunni, sem segir jafnframt að það hafi ekki verið kortlagt nákvæmlega hversu mikil þörfin á vörnum gegn landbroti sé í raun. Hins vegar sé til allra þeirra verkefna sem um ræðir aðeins veitt um 50 milljónum á ári. „Það eru því ekki margar og stórar framkvæmdir sem við höfum ráð á að fara í á hverju ári. Við forgangsröðum verkefnum eftir þörfum,“ segir Sigurjón en áhersla á varnaraðgerðir er þar sem ræktuðu landi, byggingum eða öðrum mannvirkjum stafar hætta af ágangi vatna.

Sigurjón Einarsson
Umsóknir sem berast Landgræðslunni eru allt að 80 talsins ár hvert. Mögulegt hefur verið að sinna 25 til 40 verkefnum. „Svo koma ár þar sem bara er sinnt stórum viðhaldsverkefnum á varnargörðum, eins og í kjölfar náttúruhamfara. Svo biðlistinn hjá okkur er alllangur,“ segir Sigurjón og bætir við að töluverð orka fari í að viðhalda varnargörðum frá fyrri tíð. „Það er alltaf stærri og stærri hluti af fjármagninu sem fer í þetta viðhald. En það má segja að verkefnin séu endalaus og víða. Mörg bíða og fá ekki afgreiðslu þótt þau sannarlega krefjist þess að brugðist sé við,“ segir Sigurjón.

Í nýlegri greinargerð starfshóps umhverfisráðherra um tillögur að inntaki nýrra laga um landgræðslu kemur fram að landbrot af völdum fallvatna er viðvarandi vandamál í fjölmörgum ám landsins. Í ljósi þess að landbrot er verulegt hér á landi, og á það bæði við um ræktað land og annað gróið land, leggur nefndin það til að lög um varnir gegn landbroti verði endurskoðuð og felld inn í ný lög um landgræðslu.

Lögboðin skylda en fjármagn fylgir ekki

  • Landgræðsla ríkisins hefur það hlutverk skv. lögum að draga úr eða koma í veg fyrir landbrot og annað tjón á landi, landkostum eða mannvirkjum með vörnum gegn landbroti af völdum fallvatna.
  • Landgræðslan starfar náið með Vegagerðinni um framkvæmd varna gegn landbroti. Ef varnaraðgerðum er ætlað að verja bæði gróðurlendi og samgöngumannvirki hafa þessar stofnanir skipt með sér kostnaði.
  • Vegagerðin annast og hefur umsjón með varnaraðgerðum vegna vega, brúa og annarra samgöngumannvirkja á landi.
  • Þar sem vandasamar eða umfangsmiklar fyrirhleðsluframkvæmdir eru fyrirhugaðar á vegum Landgræðslunnar, annast Vegagerðin verkfræðilegan undirbúning, útboð og eftirlit með þeim.
  • Siglingastofnun annast gerð varnargarða gegn ágangi sjávar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×