Össur segist hafa þegið boð um að vera ræðumaður á skötukvöldi til styrktar góðu málefni á Hellu sem þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson stóð fyrir í gærkvöldi.
„Maður segir ekki nei við því,“ segir Össur og ákveður í framhaldinu að deila með lesendum sínum „sögu“ af Brynjari sem sé glæný og því sem næst dagsönn.

Einsog menn muna lofaði hann á Fésbók að bestu manna ráðum að mæta í þingsal berrassaður - á bindinu einu klæða. Daginn sem þetta átti að gerast fékk Brynjar lánaðan sæg skrautlegra binda og kallaði síðan á Jón Gunnarsson, alþingismann, til að velja með sér flottasta bindi þingsögunnar. Þegar þingmaðurinn var kominn berrassaður á Adamsklæðin ein kom í ljós að hann hafði gert sér töluvert aðra mynd af sjálfum sér en birtist þeim félögum nú af nokkru vægðarleysi í speglinum.
Brynjar sá hrukku hér, appelsínuhúð þar, fölgrá hár, þjóhnappa allsigna, eitthvað sem minnti á æðahnút, og loks bylgjuðust torkennilegar fellingar þar sem hann forðum minntist gljástrengds „six-pack.“
„Og hvaða gamla varta er þetta eiginlega?“ spurði hann loks í örvæntingu og benti í spegilinn neðan þindar. Þegar Jón Gunnarsson sagði að í barnaskólanum hefði þetta líffæri stundum verið kallað bibbinn var honum öllum lokið.
„Nei, nú er ég hættur við,“ sagði Brynjar brostinni röddu. Þegar hann hafði aðeins jafnað sig bætti hann við angistarfullur: „Jón minn, nú þarf ég áfallahjálp, geturðu ekki bent mér á eitthvað sem ég get verið stoltur af?“ – Jón Gunnarsson var fljótur til svars:
„Þú ert alla vega með mjög góða sjón.“