Tíu núverandi og fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins héðan og þaðan af landinu skora á Ólöfu Nordal að bjóða sig fram til embætti varaformanns flokksins á komandi landsfundi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hópurinn sendi Mbl.is.
„Án þess að á nokkurn sé hallað teljum við Ólöfu vera hæfasta sjálfstæðismannin á landinu öllu til að leiða flokkinn, ásamt Bjarna Benediktsyni formanni, í átt að víðsýnni umbótastefnu á grundvelli einstaklings- og atvinnufrelsis með hagsmuni þjóðarinnar allrar að leiðarljósi,“ segir í yfirlýsingunni.
Hanna Birna Kristjánsdóttir er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og hefur gefið út að hún gefi áfram kost á sér. Skiptar skoðanir eru innan flokksins um ákvörðun hennar og hefur hún verið hvött til að hætta við framboðið. Formaðurinn Bjarni Benediktsson segist ekki hafa orðið var við óánægju innan flokksins með ákvörðun Hönnu Birnu.
Yfirlýsingin í heild:
„Undirrituð skora hér með á Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, að gefa kost á sér til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins sem hefst 23. október.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá stofnun verið sú stjórnmálahreyfing sem Íslendingar treysta best til að stjórna sameiginlegum hagsmunum landsmanna. Hann hefur komið að landsstjórninni í 22 af þeirri 31 ríkisstjórn sem mynduð hefur verið frá stofnun hans og veitt 15 þeirra forystu. Á grundvelli stefnu Sjálfstæðisflokksins hefur Ísland brotist úr fátækt til velmegunar.
Stefna Sjálfstæðisflokksins á enn sem fyrr erindi við samtímann. Að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili hefur tekist að tryggja að framtíð Íslands er nú vonum framar björt.
Störf Ólafar sem þingmaður, ráðherra og leiðtogi tala sínu máli. Viðbrögð hennar við þeim verkefnum sem lífið hefur fært henni hafa einkennst af æðruleysi og eru til marks um ágæti hennar. Án þess að á nokkurn sé hallað teljum við Ólöfu vera hæfasta sjálfstæðismannin á landinu öllu til að leiða flokkinn, ásamt Bjarna Benediktsyni formanni, í átt að víðsýnni umbótastefnu á grundvelli einstaklings- og atvinnufrelsis með hagsmuni þjóðarinnar allrar að leiðarljósi.
Miðvikudaginn 30. september 2015
Ásbjörn Óttarsson, fyrrverandi alþingismaður, Snæfellsbæ
Ásdís Snót Guðmundsdóttir, formaður Sjálfstæðisfélags Arnarfjarðar
Berglind Sigurðardóttir, formaður Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði
Böðvar Sturluson, Stykkishólmi, formaður kjördæmasamtaka ungra sjálfstæðismanna í NV kjördæmi
Guðmundur Jón Helgason, formaður Sjálfstæðisfélags Seltirninga
Hafdís Gunnarsdóttir, formaður Sjálfstæðisfélags Ísafjarðar
Hjörtur Sigurðsson, formaður Sjálfstæðisfélagsins á Patreksfirði
Magni Þór Harðarson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð
Pétur Ottesen, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akranesi
Sölvi Sólbergsson, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Bolungarvík“
