Innlent

Hettusótt greinist enn á Íslandi

Atli Ísleifsson skrifar
Sóttvarnalæknir mælir með því að einstaklingar sem fæddir eru eftir 1980, sem ekki hafa verið bólusettir eða hafa ekki fengið hettusótt, láti bólusetja sig.
Sóttvarnalæknir mælir með því að einstaklingar sem fæddir eru eftir 1980, sem ekki hafa verið bólusettir eða hafa ekki fengið hettusótt, láti bólusetja sig. Vísir/EPA
47 einstaklingar hafa greinst með hettusótt á landinu það sem af er ári.

Landlæknisembættið greinir frá því að alls hafi ellefu einstaklingar verið greindir með hettusótt í maí, átján í júní og sextán í júlí.

Langflestir af þeim sem hafa greinst eru á aldrinum 20 til 35 ára og eru 64 prósent smitaðra karlmenn.

„Tíu einstaklingar (21%) eru með sögu um a.m.k. eina bólusetningu gegn hettusótt og er það í samræmi við fyrri fréttir um að bóluefnið gegn hettusótt veitir minni vernd en bóluefnið gegn mislingum og rauðum hundum sem eru í sömu sprautu.

Þrátt fyrir að bólusettir einstaklingar geti veikst af hettusótt þá er bólusetning eini raunhæfi valkosturinn til að koma í veg fyrir sýkinguna.

Eins og áður þá mælir sóttvarnalæknir með því að einstaklingar sem fæddir eru eftir 1980, sem ekki hafa verið bólusettir eða hafa ekki fengið hettusótt, láti bólusetja sig. Bólusetninguna má fá á heilsugæslustöðvum,“ segir í frétt á vef landlæmisembættisins.

Hettusótt er bráð og mjög smitandi veirusýking og eru helstu einkenni hennar hiti, slappleiki, bólga og særindi í munnvatnskirtlum, höfuðverkur, erfiðleikar við að tyggja og lystarleysi.

Nánar má lesa um hettusótt á vef landlæknis.


Tengdar fréttir

Neymar með hettusótt

Neymar, framherji Barcelona, hefur verið greindur með hettusótt og gæti misst af byrjun tímabilsins á Spáni vegna veikindana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×