„Maður hefur það fínt. Ég er ennþá í bílnum og það er ekkert annað að gera en að bíða bara,“ segir Páll Ágúst Sigurðarson, vörubílstjóri, sem situr fastur í bíl sínum á Kleifaheiði. Þar er hann búinn að vera í tólf tíma en Páll var á leiðinni með fisk frá Rifi á Snæfellsnesi til vinnslu á Tálknafirði þegar hann festist á leiðinni niður af Kleifaheiði.
Sjá einnig: Fastur á Kleifaheiði í sex tíma og sér fram á að vera þar í nótt
Páll segir að það sé blindhríð á heiðinni og ekkert skyggni. Það væsi þó ekki um hann inni í hlýjum bílnum þar sem hann getur hallað sér í koju með sæng.
„Það er enginn í lífshættu hérna þannig að ég vil ekkert að það sé verið að vaða neitt út í þetta. Þetta er ágætt og ég tek bara innhverfa íhugun hérna,“ segir Páll léttur í bragði.
Hann er tiltölulega nýbyrjaður að keyra vörubíl og hefur ekki áður lent í því að vera fastur svona lengi. Hann býst við að Vegagerðin komi á morgun og kippi í bílinn þannig að hann geti haldið áfram leið sinni til Tálknafjarðar.
