Innlent

„Svo kom þessi rosalegi þrýstingur og það titraði allt“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Búið er að rýma um þrjátíu hús á sunnaverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu. Snjóflóð féll á Patreksfirði í dag. Íbúi í bænum heyrði miklar drunur og fann titring þegar flóðið féll við hús hans og hreif með sér bíl sem stóð þar nærri.

Vonskuveður hefur verið á sunnaverðum Vestfjörðum í dag. Um hádegisbil féll snjóflóð við hús Hrannar Árnadóttur sem býr við Urðargötu á Patreksfirði. „ Ég fór heim úr vinnunni um ellefu leytið því það var bara orðið svo vitlaust veður að ég ætlaði bara að komast heim á bílnum,“ segir Hrönn.

Hún sat inni í stofu og var að vinna í tölvunni um eitt leytið þegar snjóflóðið féll. „ Þá heyrði ég bara ógurlega skruðninga og læti og ég hélt að þetta væri bara einhver stór vél að keyra framhjá húsinu. Svo kom þessi rosalegi þrýstingur og það titraði allt en það er svo blint að maður sér ekki neitt. Ég hljóp út í glugga og þá sá ég bara að bílinn hjá nágrannakonunni var kominn niður fyrir veg, “ segir Hrönn. Hún segir snjóflóðið hafa fallið við hlið hússins en þó fyrir utan girðingu.

Hrönn hafði strax samband við björgunarsveitir og voru hús við götun þá rýmd. Erfitt er að segja til um stærð flóðsins en talið er að það sé meira en sextíu metra breitt. Hrönn dvelur nú hjá ættingjum í bænum. „ Þetta fellur þarna sko á milli Urðargötu og Mýra. Þetta er óbyggt svæði út af snjóflóðahættu. Þannig að við erum alveg þarna á mörkunum,“ segir Hrönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×