Orð formannsins, Valmundar Valmundssonar, hafa vakið nokkra furðu en þar segir hann sjómanninum að „skíta í píkuna á sér“. Ummælin ritaði hann í nafni sambandsins.
Umræðan hófst þegar Sjómannasambandið hvatti félagsmenn til að tjá skoðun sína á bréfi sem sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness sendi sjómönnum vegna þeirrar stöðu sem upp sé komin í kjaradeilu þeirra við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Valmundur segist í samtali við Vísi hafa fjarlægt ummælin af síðunni. Skaðinn sé þó skeður. „Þessi maður er að bera mig alvarlegum ásökunum þarna. Hann svarar mér „þú hefur aldrei í káetu komið“ og setur svo „tussusnúður“ fyrir aftan. Þá hélt ég að þetta væri bara grín þannig að ég skrifaði þetta á móti. En ég er búinn að setja fram afsökunarbeiðni og tek það fram að þetta var ekki í nafni Sjómannasambandsins heldur algjörlega mín sök,“ segir hann.
Aðspurður segir hann það ekki við hæfi formanns að tjá sig með slíkum hætti. „Ekki við hæfi formanns en sem persónu að svara fyrir sig finnst mér það já. Þetta er sagt frá mínu brjósti en ekki fyrir sjómenn eða samtök sjómanna. Ég svara fyrir mig, það er bara þannig. Sérstaklega ef maður er borinn þungum sökum. Þannig að mistökin felast í því að setja þetta fram þarna en ekki á minni eigin síðu.“