Enski boltinn

Misst markvörðinn út af fjórum sinnum í síðustu sex leikjum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mynd tengist efni fréttar ekki beint.
Mynd tengist efni fréttar ekki beint. vísir/getty
Enska utandeildarliðið Oxford City hefur orðið fyrir því að missa markvörðinn sinn af velli í fjórum af síðustu sex leikjum sínum.

Nú síðast var Tyrkjanum Ali Aksoy vikið af velli í gær með rautt spjald í 4-3 tapi gegn Tamworth sem nýtti sér liðsmuninn og tryggði sér sigurinn. Þetta var fyrsti leikur Aksoy fyrir Oxford. Frábær byrjun.

Spænski markvörðurinn Salva de la Cruz hefur tvisvar sinnum verið rekinn út af og Marko Scott sá rautt í leik liðsins gegn Brackley Town í febrúar.

„Eldingu sló ekki niður á sama stað tvisvar hjá okkur heldur fjórum sinnum. Það er erfitt að taka þessu,“ segir Justin Merritt, knattspyrnustjóri Oxford, við BBC.

Oxford er í níunda sæti deildarinnar og Merritt er fullmeðvitaður um að þessar brottvísanir haldi liðinu frá efstu sætunum. „Við höfum fengið of mörg rauð spjald á þessari leiktíð. Við höfum rætt þetta oft og þetta kostar okkur stig,“ segir hann.

„Ég hef verið grillaður af ameríska forseta félagsins um ástæður þess að ég er aldrei með varamarkvörð á bekknum. Það er auðvelt að vera vitur á eftir. Það var nógu erfitt að vinna einn markvörð, hvað þá tvo,“ segir Justin Merritt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×