Innlent

Píratar vilja stytta vinnudaginn um klukkustund

Bjarki Ármannsson skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati er meðal flutningsmanna.
Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati er meðal flutningsmanna. Vísir/Vilhelm
Þrír þingmenn Pírata og þingmaður Samfylkingar hafa lagt fram frumvarp þess efnis að í vinnuviku verði ekki unnar fleiri en 35 klukkustundir. Vinnutíminn færi því úr átta klukkustundum í sjö. Tillagan myndi því minnka heildarvinnutíma um u.þ.b 230 klukkustundir á ári.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en ekki mælt fyrir því og það því lagt fram óbreytt. Það eru þau Björn Leví Gunnarsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson Píratar og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir úr Samfylkingunni sem mæla fyrir frumvarpinu.

Í frumvarpinu er vísað í skýrslur Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) sem mæla eiga jafnvegi á milli vinnu og frítíma. Þar kemur Ísland nokkuð illa út. Í frumvarpinu segir að margt í skýrslunum bendi til þess að styttri vinnudagur leiði til meiri framleiðni og aukinna lífsgæða.

„Framleiðni á Íslandi er undir meðaltali landa OECD,“ segir í frumvarpinu. „Frakkland, sem hefur verið með 35 stunda vinnuviku síðan árið 2000, er með talsvert hærri framleiðni en á Íslandi og landið er mun ofar í mati á jafnvægi milli vinnu og frítíma. Danmörk, Spánn, Belgía, Holland og Noregur eru efst á þessum lista, þar er vinnutíminn styttri en á Íslandi en framleiðnin meiri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×