Innlent

Hátíðleg stund á Austurvelli í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gleðin var við völd á Austurvelli í dag.
Gleðin var við völd á Austurvelli í dag. vísir/stefán
Þúsundir komu saman á Austurvelli í dag til að fagna 100 ára afmæli kosningaréttar og kjörgengis kvenna.

Hátíðardagskrá hófst klukkan 16 með kórsöng. Lag Hildigunnar Rúnarsdóttur var þá flutt við ljóð Þorsteins Valdimarssonar „Vorlauf.“ Því næst steig frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, út á svalir Alþingishússins við dynjandi lófaklapp og flutti hátíðarávarp.

Léttsveit Reykjavíkur frumflutti svo ásamt Kvennakórnum Kötlu lag Gísla Magna Sigríðarsonar við ljóð Guðrúnar Evu Mínervudóttur, „Við gerum fagran neista að björtu báli.“

Einar K. Guðfinnsson flutti svo ávarp og þá söng Barnakór Vatnsendaskóla, undir stjórn Þóru Marteinsdóttur, lagið „Dómar heimsins“ eftir Valgeir Guðjónsson en ljóðið er eftir Jóhannes úr Kötlum.

Þessu næst var afhjúpuð höggmynd af Ingibjörgu H. Bjarnason við Skála Alþingis en hún var fyrsta konan sem kjörin var til setu á Alþingi. Listaverkið er eftir Ragnhildi Stefánsdóttur, myndhöggvara.

Þá flutti Léttsveit Reykjavíkur og Kvennakórinn Katla lagið „Áfram stelpur.“ Textinn er eftir Dagnýju Kristjánsdóttur og Kristján J. Jónsson við lag Gunnars Edander.

Dagskránni lauk svo með baráttuávarpi Fríðu Rósar Valdimarsdóttur, formanni Kvenréttindafélags Íslands.

Stefán Karlsson, ljósmyndari Vísis, var á Austurvelli í dag og fangaði stemninguna. Myndirnar má sjá í meðfylgjandi albúmi.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×