Enski boltinn

Kane enn og aftur hetja Tottenham | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane skallar boltann í netið og kemur Tottenham í 0-1.
Harry Kane skallar boltann í netið og kemur Tottenham í 0-1. vísir/getty
Harry Kane var enn og aftur á skotskónum þegar Tottenham vann 1-2 sigur á QPR í Lundúnaslag í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Mörkin í leiknum má sjá hér að neðan.

Kane skoraði bæði mörk Tottenham í leiknum en hann er nú kominn með 16 mörk í úrvalsdeildinni og er nú aðeins marki á eftir Diego Costa og Sergio Agüero á listanum yfir markahæstu menn deildarinnar.

Leikurinn í dag var mjög fjörugur og QPR var síst lakari aðilinn. Hugo Lloris átti góðan leik í marki Tottenham og nýliðarnir höfðu t.a.m. átt skot í slá áður en Kane kom Spurs yfir á 34. mínútu með skalla eftir aukaspyrnu Andros Townsend.

Kane bætti svo öðru marki við á 68. mínútu. Hann fékk þá sendingu inn fyrir vörn QPR frá Ryan Mason, lék á Rob Green og skoraði í autt markið.

Sandro minnkaði muninn í 1-2 með fallegu marki á 75. mínútu en nær komust heimamenn ekki.

Með sigrinum komst Tottenham upp fyrir Southampton í 6. sætið úrvalsdeildarinnar en lærisveinar Mauricio Pochettino er nú aðeins þremur stigum frá Meistaradeildarsæti.

QPR er hins vegar í 18. og þriðja neðsta sæti deildarinnar en liðið er búið að tapa fimm af síðustu sex leikjum sínum.

QPR 0-1 Tottenham QPR 0-2 Tottenham QPR 1-2 Tottenham



Fleiri fréttir

Sjá meira


×