FH-ingar héldu blaðamannafund á dögunum þar sem Bjarni Þór Viðarsson og Jérémy Serwy skrifuðu meðal annars undir samninga og í gær var röðin komin að KR-ingum sem héldu sinn eigin fund. Skúli Jón Friðgeirsson er kominn heim líkt og Bjarni en áður höfðu þeir Rasmus Christiansen og Sören Frederiksen gengið frá samningi við KR-liðið.
Tólf af síðustu sextán
KR og FH hafa unnið tólf af sextán Íslandsmeistaratitlum í boði frá árinu 1999 og ekkert annað félag hefur unnið hann oftar en einu sinni á sama tímabili. Það er því ekkert skrítið að talað sé um risana tvo og að önnur félög bíði svolítið eftir því hvaða línur FH og KR leggja í leikmannamálum. Hingað til hafa þau bæði slegið sama taktinn.
Hvort sem það er sonur sem er kominn heim á ný eftir lítinn spilatíma í útlöndum, miðvörður sem er þekkt stærð í íslensku deildinni eða sókndjarfur erlendur kantmaður þá má finna einn af hverri gerð hjá félögunum tveimur. Reynslumikill og fjölhæfur miðjumaður er líka mættur á hvorn staðinn fyrir sig og þá hafa bæði félögin horft á eftir svipuðum týpum.

Staða FH betri á blaði
Staða FH-inga er vissulega betri á blaði. Þeir voru hársbreidd frá Íslandsbikarnum síðasta haust og hafa heldur ekki misst lykilmenn liðsins eins og KR-liðið. KR-ingar þurfa því að gera enn betur ætli þeir að standa í fæturna gegn liðum FH og Stjörnunnar sem voru í nokkrum sérflokki síðasta sumar.
Íslandsmeistarar Stjörnunnar hafa til þessa ekki tekið þátt í leikmannakapphlaupinu af sama krafti og KR og FH en Garðbæingar hafa styrkt sig skynsamlega og þeir eru jafnframt til alls líklegir á lokasprettinum. Þangað til fylgjast þeir eflaust með kappi risanna eins og hin lið Pepsi-deildarinnar.
Fréttablaðið notaði tækifærið eftir fréttir gærdagsins og bar saman breytingarnar á leikmannahópi KR og FH frá því síðasta haust.