Innlent

Húsafellshjón Vestlendingar ársins hjá Skessuhorni

Atli Ísleifsson skrifar
Hrefna Sigmarsdóttir og Bergþór Kristleifsson.
Hrefna Sigmarsdóttir og Bergþór Kristleifsson. Mynd/Skessuhorn
Ferðaþjónustuhjónin Hrefna Sigmarsdóttir og Bergþór Kristleifsson í Húsafelli eru Vestlendingar ársins 2015 að dómi lesenda Skessuhorns.

Þetta er í sautjánda sinn sem Skessuhorn velur Vestlending ársins, þar sem sá eða þau eru valin sem þykja hafa skarað framúr á einhvern hátt á árinu.

„Viðurkenninguna hljóta þau fyrir myndarlega uppbyggingu í Húsafelli en í júní opnuðu þau fjögurra stjörnu hótel í hjarta Húsafells með glæsilegum veitingastað.

Framkvæmdin þykir hafa heppnast eintaklega vel, enda unnin af miklum metnaði og forsjálni. Áframhaldandi framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Húsafelli og mun hótelið og önnur þjónusta sem þar er hafa jákvæð áhrif á vöxt ferðaþjónustu í landshlutanum.

Lesendum Skessuhorns þótti uppbyggingin í Húsafelli verðskulda að þeir sem að henni standa hljóti sæmdarheitið Vestlendingar ársins 2015.

Auk Húsafellshjóna hlutu flestar tilnefningar: Andrea Björnsdóttir bóndi og mannvinur á Eystri-Leirárgörðum, Alda Dís Arnardóttir söngkona frá Hellissandi, Hilmar Sigvaldason vitavörður á Akranesi og hjónin Kjartan Ragnarsson og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir í Landnámssetrinu í Borgarnesi,“ segir í tilkynningu frá Skessuhorni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×