Innlent

Skjálftar í Bárðarbungu merki um kvikustreymi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bárðarbunga sýnir nú skýr merki þess að kvika streymi inn í eldstöðina. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur telur víst að fjallið sé að búa sig undir eldgos sem hann spáir að verði á næsta eða þarnæsta ári. 

Eldgosið í Holuhrauni er skilgreint afkvæmi Bárðarbungu og nú, níu mánuðum frá goslokum, sjást merki þess að þetta næst hæsta fjall Íslands sé að búa sig undir önnur átök. Þannig mældust síðasta sólarhring tvær skjálftar yfir þrjú stig í fjallinu.

Ármann segir að skjálftum hafi tekið að fjölga um mitt sumar. Spenna sé að byggjast upp, sem væntanlega þýði að kvika sé að safnast aftur saman undir eldfjallinu. Hann minnir á að Bárðarbunga sé eldstöð á flekamótum. „Þegar þær fara af stað eru þær uppundir tíu ár að klára sig,” segir Ármann.

Spurður hvort hann túlki þetta svo að Bárðarbunga sé að búa sig undir nýtt eldgos svarar Ármann:

„Já, ég myndi alveg klárlega gera það. Klárlega á ég von á því að hún komi aftur, - það verður ekkert mjög langt í það, held ég.” 

En hversu langt gæti verið í næsta gos?

„Núna á næsta eða þarnæsta ári, þá kemur hún aftur, mundi ég halda, miðað við það hvernig þær haga sér þessar eldstöðvar, sem eru á flekamótunum sjálfum.” 

Gosið í Holuhrauni kom upp 40 kílómetrum frá Bárðarbungu. Ármann segir erfitt að spá hvar eldstrókarnir komi upp næst. Það gæti allt eins orðið annað gos á Flæðunum eða sunnan undir jöklinum.

„Ef næsta sprunga opnast inni í jöklinum þá verður það klárlega sprengigos. Og ef hún kemur upp um toppinn þá myndi ég halda að við fengjum ansi myndarlegt sprengigos.”
Fleiri fréttir

Sjá meira


×