Erlent

Yfirlýsingu Kim um vetnissprengju tekið með efasemdum

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/EPA
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, lýsti því yfir í dag að þjóð hans byggi nú yfir vetnissprengjum, sem eru öflugri en hefðbundnar kjarnorkusprengjur. Þetta sagði Kim þegar hann fór um Phyongchon uppreisnar minnisvarðann, þar sem minnst er afreka Kim Jong Il, föður hans, og afa hans, Kim Il Sung.

Sérfræðingar hafa hins vegar tekið yfirlýsingunni með efasemdum.

Hann sagði að vinna Kim Il Sung hefði skilað af sér Norður-Kóreu sem byggi yfir öflugu safni kjarnorkuvopna. Bæði hefðbundna vopnum og vetnissprengjum. Kjarnorkuvopn hafa verið sprengd í Norður-Kóreu. Fyrst árið 2006, svo 2009 og síðast 2013. Umfangsmiklum viðskiptaþvingunum hefur verið beitt gegn landinu síðan samkvæmt frétt Reuters.

Yfirvöld í Bandaríkjunum draga í efa að yfirvöld í Norður-Kóreu hafi þróað vetnissprengju, en segja þó að ógn stafi af ríkinu einangraða.

Þar að auki segja yfirvöld í Suður-Kóreu að þeir búi ekki yfir upplýsingum sem gefi í skyn að nágrannar þeirra í norðri hafi burði til að framleiða slíka sprengju. Þeir telja að yfirlýsing Kim sé einungis áróður. Þó segja sérfræðingar sem Reuters ræddi við að í nokkur ár hafi eftirlitsaðilar haft áhyggjur af því að Norður-Kórea ynni að því að koma upp vetnissprengjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×