Innlent

Borgin samþykkir framkvæmdir við MR

Ingvar Haraldsson skrifar
Menntamálaráðuneytið stefnir ekki að því að endurreisa Casa Christi í upprunalegri mynd þrátt fyrir tillögu Minjastofnunar þess efnis.
Menntamálaráðuneytið stefnir ekki að því að endurreisa Casa Christi í upprunalegri mynd þrátt fyrir tillögu Minjastofnunar þess efnis. fréttablaðið/vilhelm
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt framkvæmdir við 4.700 fermetra skólabyggingar á lóð Menntaskólans í Reykjavík. Þar mun rísa bókasafn, íþróttahús auk fyrirlestrasals og kennslustofa.

Alls eiga framkvæmdirnar að kosta um 2,5 milljarða króna. Ekki liggur fyrir hvenær ríkið mun leggja framkvæmdunum til fé en þær eru ekki á fjárlögum næsta árs. „Stóra spurningin er með fjármögnunina,“ segir Yngvi Pétursson, rektor MR. Hann bendir á að hugmyndirnar séu ekki nýjar, þær byggi á hugmyndasamkeppni frá árinu 1995.

Reykjavíkurborg samþykkti einnig að láta rífa bygginguna Casa Christi sem er á þeim hluta lóðarinnar þar sem nýtt húsnæði á að rísa.

Casa Christi var reist árið 1907 eftir uppdrætti Einars Einarssonar húsameistara og var félagsheimili KFUM og KFUK. Minjastofnun leggur til að húsið verði reist í upprunalegri mynd á nýjum stað. „Ráðuneytið ætlar ekki að gera það,“ segir Þráinn Sigurðsson, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Aðrir aðilar þyrftu að koma að því að endurreisa húsið ef af því eigi að verða. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×