Innlent

Allsherjarnefnd mun taka fyrir umsókn frá albönsku fjölskyldunni ef hún berst

Birgir Olgeirsson skrifar
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis. Vísir/Vilhelm
„Þetta er í sjálfu sér ekki inni í nefndinni en ef það kemur umsókn þá að sjálfsögðu skoðum við hana,“ segir Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, aðspurð hvort nefndin ætli að veita albanskri fjölskyldu ríkisborgararétt sem var flutt úr landi aðfaranótt fimmtudags í síðustu viku.

Greint var fyrst frá málinu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Sjá hér. 

Sjá einnig: Vilja koma Kevi heim

Fréttablaðið sagði frá því í morgun að hópur fólks vinni að því að koma fjölskyldunni aftur til Íslands. Brottflutningur fjölskyldunnar hefur vakið reiði í samfélaginu vegna þess að sonur hjónanna Kastrijot og Xhuliu, hinn þriggja ára gamli Kevi, er með slímseigjusjúkdóm. Sjúkdómurinn er lífshættulegur og veldur sýkingum í líffærum. Unnur Brá segir allsherjarnefnd taka fyrir umsóknir, málið sé í sjálfu sér ekki inni í nefndinni en ef umsókn berst muni nefndarmenn skoða hana.

Hún segir að samkvæmt ferli nefndarinnar sé í raun of seint að sækja um ríkisborgararétt fyrir fjölskylduna. Umsóknir til Alþingis um íslenskan ríkisborgararétt eru afgreiddar tvisvar á ári, á vormánuði og í desember, og því sá frestur liðinn en Unnur Brá tekur fram að samkvæmt lögum má nefndin taka þessa ákvörðun hvenær sem er.

„Ef það eru sérstakar aðstæður þá hefur það gerst að umsóknir hafa verið teknar inn,“ segir Unnur Brá og bendir á tilvik  drengsins Joel Færseth og Bobby Fischer heitinn.

Sjá einnig: Jóel litli kominn heim




Fleiri fréttir

Sjá meira


×