Innlent

Öll gögn Albananna eru komin í hendur Alþingis

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Arjan mun eins og Kevi  landi hans þurfa undanþágu frá reglum um sjúkratryggingar til að fá viðeigandi læknishjálp komi hann til Íslands.
Arjan mun eins og Kevi landi hans þurfa undanþágu frá reglum um sjúkratryggingar til að fá viðeigandi læknishjálp komi hann til Íslands. Mynd/Stöð2
Pepoj-fjölskyldan er stödd úti í Skode í Albaníu og er afskaplega fegin stuðningi sem hún hefur fengið frá íslensku samfélagi. Til að komast til Íslands aftur hefur hún þurft að afla gagna, svo sem sakavottorða, hjúskaparvottorðs og fæðingarvottorða.

Hermann Ragnarsson, sem hefur lagt fjölskyldunni lið, segir albanskan þingmann greiða götu þeirra svo þau komist sem fyrst með Kevi til Íslands.

„Albanskur þingmaður aðstoðar Pepoj-fjölskylduna við að afla gagn­anna eins fljótt og kostur er til að þau komist sem fyrst til landsins. Nú eru öll gögn komin til allsherjarnefndar til vinnslu,“ segir Hermann og staðfestir með því að umsókn fyrir fjölskylduna hafi verið lögð fram.

Einnig hefur verið lögð umsókn fyrir Phellumb-fjölskylduna og drenginn Arjan sem glímir við hjartveiki.

Allt kapp er lagt á að fara yfir umsóknir um ríkisborgararétt áður en kemur að jólafríi.vísir/vilhelm
Um­sókn­ir um ríkisborgararétt sem allsherjarnefnd Alþingis fjallar nú um eru 62 en þær varða fleiri ein­stak­linga þar sem ð hver um­sókn get­ur varðað ein­stak­ling og börn hans.

Í framhaldinu gerir allsherjarnefnd tillögu að frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar. Tíminn er að verða naumur en talið er áríðandi að frumvarpið verði afgreitt fyrir jólafrí Alþingis. Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, segist gera ráð fyrir því að frumvarpið verði lagt fram fljótlega.

Þótt báðar albönsku fjölskyldurnar gætu fengið ríkisborgararétt fyrir jól þarf að greiða úr ýmsum flækjum varðandi komu þeirra til landsins. Mikilvægt er að drengirnir tveir, Kevi og Arjan, fái heilbrigðisþjónustu. Nýir ríkisborgarar eru hins vegar undanskildir sjúkratryggingum fyrstu sex mánuðina eftir komu, eða endurkomu til Íslands.

Sjúkratryggingastofnun er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem sjúkratryggður er samkvæmt lögunum sé áfram sjúkratryggður hafi hann dvalið erlendis í námi eða atvinnu en ströng skilyrði eru sett um búsetu á Íslandi áður. Því er ljóst að eins konar undanþágu þarf frá reglum um sjúkratryggingar.


Tengdar fréttir

Vonar að albönsku fjölskyldurnar komi aftur fyrir áramót

Albönsku fjölskyldurnar tvær sem sendar voru úr landi síðasta fimmtudag hafa sótt um íslenskan ríkisborgararétt, í stað þess að sækja um hæli. Vinur fjölskyldnanna vonar að málið verði afgreitt hratt og að þær komi aftur hingað til lands fyrir áramótin.

Vilja koma Kevi heim

Ekkert er því til fyrirstöðu að albanska fjölskyldan sem vísað var úr landi á fimmtudag sæki aftur um hæli hér á landi, að mati lögmanns. Unnið er að fjármögnun og skipulagningu þess að koma fjölskyldunni aftur til Íslands. 

Aðstæður í Albaníu óboðlegar börnum

Brottvísun tveggja albanskra fjölskyldna hefur vakið mikla reiði í samfélaginu síðastliðinn sólarhring. Sérstaklega vegna veikinda tveggja ungra drengja. Í annað sinn á hálfu ári er flugvél leigð undir hóp albanskra hælisleitenda til að senda þá úr landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×