Innlent

Alþingi samþykkir að sjálfstætt eftirlit verði með fangelsum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Litla-Hraun er eitt af fjórum fangelsum hér á landi.
Litla-Hraun er eitt af fjórum fangelsum hér á landi. vísir/anton brink

Þingsályktun Pírata um fullgildingu OPCAT-viðaukans hér á landi var samþykkt á Alþingi í dag. Um er að ræða viðauka við Samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Fram kemur í tilkynningu frá þingflokki Pírata að í viðaukanum sé kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila sem falið er að heimsækja fangelsi reglulega sem og aðrar stofnanir sem vista frelsissvipta einstaklinga, til dæmis geðsjúkrahús.

Tilgangurinn með eftirlitinu er að koma í veg fyrir að pyndingar eða önnur grimmileg meðferð viðgangist inn á þessum stofnunum.

Í viðaukanum er kveðið á um tvíþætt eftirlit, annars vegar eftirlit á vegum alþjóðlegrar nefndar sem heimsækir ríki sem fullgilt hafa viðaukann og hins vegar eftirlit sem komið er á fót innan hvers aðildarríkis samkvæmt fyrirmælum viðaukans.

Samkvæmt þingsályktuninni sem samþykkt var í dag á ríkisstjórnin að sjá til þess að viðaukinn verði fullgildur og Ísland verði þannig skuldbundið til þess að koma á fót því sjálfstæða eftirliti sem þar er kveðið á um.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.