Innlent

Kona sem flúði frá Gaza til Íslands fékk ekki leigða íbúð af því hún er múslimi

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir. skrifar
Marwa Salameh, einstæð móðir frá Palestínu, fékk ekki að leigja íbúð í Reykjavík af því að hún er múslimi. Hún segist hafa lítið sofið nóttina eftir að leigusalinn tjáði henni að hann leigði ekki múslimum eftir hryðjuverkin í París. Marwa kom hingað til lands sem flóttamaður frá Gaza í Palestínu. Hún á tvo litla stráka og hefur búið hér í rúmlega ár.

Fyrst eftir komuna til landsins bjó hún á gistiheimili en síðan í leiguíbúð í Norðurmýrinni. Samningurinn þar rennur út eftir mánuð.

Samskiptin sem um ræðir.
Hún segist ekki telja að Íslendingar séu rasistar. Þetta sé í fyrsta sinn sem hún upplifi eitthvað þessu líkt en henni hafi verið mjög brugðið.

Óttast að lenda á götunni

Á Facebook í gær sá hún auglýsta íbúð til leigu sem hún taldi að gæti hentað henni og drengjunum. Hún setti sig í samband við leigusalann sem var kona og óskaði eftir að leigja íbúðina. Konan fór í framhaldinu að spyrja allskyns spurninga, meðal annars hverrar trúar hún væri. Þegar hún sagðist vera múslimi, sagðist konan ekki leigja múslimum eftir hryðjuverkin í París.

Marwa segist hafa reynt að útskýra fyrir konunni að hún væri ekki hryðjuverkamaður. Hún væri hér á landinu til að skapa sér og drengjunum sínum  friðsamlega tilveru en allt hafi komið fyrir ekki.

Hún segist hafa sofið lítið í nótt. Hún segist óttast að hún og drengirnir lendi á götunni ef þetta verður viðkvæðið. Ástandið hér geti orðið eins og í Evrópu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.