Innlent

Margrét Frímannsdóttir hætt á Litla-Hrauni

Bjarki Ármannsson skrifar
Margrét tók við embættinu í ársbyrjun árið 2009 en hafði þá gengt starfinu í forföllum í heilt ár.
Margrét tók við embættinu í ársbyrjun árið 2009 en hafði þá gengt starfinu í forföllum í heilt ár. Vísir/GVA
Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður á Litla-Hrauni, hefur sagt upp störfum. Hún tók við embættinu í ársbyrjun árið 2009 en hafði þá gengt starfinu í forföllum í heilt ár. DV greindi fyrst frá uppsögninni.

„Ég er með þriggja mánaða uppsagnarfrest og ég er búin að vera í átta ár,“ segir Margrét. „Það var bara kominn tími til að breyta til.“

Margrét segir alls ekkert annarlegt á bak við ákvörðun sína að segja upp störfum, sem hafi verið nokkuð lengi að gerjast.

„Að taka þessa ákvörðun er erfitt, það er búið að vera mjög gefandi að vinna í fangelsunum og það tekur bara smá tíma að taka þessa ákvörðun.“

Margrét var á árum áður formaður Alþýðubandalagsins og þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Hún segir ekkert liggja fyrir um það hver næsti starfsvettvangur verði.

Að sögn Páls Winkel fangelsismálastjóra er Tryggvi Ágústsson staðgengill Margrétar og tekur hann tímabundið við stöðunni þar til ráðið verður í hana eftir auglýsingu. Tryggvi hefur verið deildarstjóri á Litla-Hrauni um árabil. Páll vildi lítið tjá sig um málið að öðru leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×