Héraðsdómur Reykjaness féllst í dag á beiðni 27 ára gamals Hollendings um að sæta gæsluvarðhaldi í fjórar vikur, til 22. desember. Hollendingurinn er einn af fjórum sem grunaðir eru um að hafa reynt að smygla 23 kílóum af sterkum fíkniefnum hingað til lands með Norrænu þann 22. september síðastliðinn.
Hann er með greindarskerðingu og andlega fötlun. Hann mótmælti ekki gæsluvarðhaldskröfu í Héraðsdómi Reykjaness í dag því hann treysti sér ekki til að sjá um sig sjálfur hér á landi þar til hann verður sóttur til saka.
Um er að ræða tvo Hollendinga og tvo Íslendinga sem grunaðir eru í þessu máli. Hinn Hollendingurinn var einnig úrskurðaður í gæsluvarðhald í fjórar vikur en hann mótmælti þeirri kröfu.
Annar Íslendinganna var einnig úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald en verjandi hans hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar. Þegar þetta er ritað er ekki vitað hver niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness var í máli hins Íslendingsins.
Uppfært 15:30:
Í fyrri útgáfu fréttar var því haldið fram að Hollendingurinn hefði sjálfur óskað eftir að sitja í gæsluvarðhaldi en svo var ekki. Reyndin var að hann mótmælti ekki gæsluvarðhaldskröfunni.
Greindarskerti Hollendingurinn mótmælti ekki gæsluvarðhaldi

Tengdar fréttir

Greindarskertur í einangrun á Íslandi án vitneskju fjölskyldu
Fjölskylda 27 ára þroskahamlaðs hollensks manns fékk ekki upplýsingar um hvar hann var í heilan mánuð. Maðurinn er í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni vegna gruns um fíkniefnasmygl.

Móðir greindarskerta fangans: „Þetta er algert hneyksli“
Hollensk móðir segir son sinn, sem dvelur í íslensku fangelsi, hafa lítið annað gert en grátið þegar hún fékk að tala við hann í nokkrar mínútur símleiðis.

Hæstiréttur stytti gæsluvarðhaldið um eina viku
Hæstiréttur stytti í dag gæsluvarðhald og einangrun yfir fjórum mönnum sem grunaðir eru um að hafa reynt að smygla 23 kílóum af sterkum fíkniefnum hingað til lands með Norrænu þann 22. september síðastliðinn.