Innlent

Margir sjúkraliðar neita að gefa lyf sem aðrir hafa fundið til

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélagsins, segir sjúkraliða farna að biðjast undan því að gefa lyf sem aðrir hafi tekið til. Þeir óttist afleiðingarnar í ljósi umræðunnar um mistök við lyfjagjafir. Sumir stjórnendur hafi mætt þessu með því að fela ófaglærðu starfsfólki að gefa lyfin.

Kristín segir að mistök í heilbrigðisþjónustu séu miklu algengari en fólk geri sér í hugarlund. Álagið sé gríðarlegt hjá öllum starfsfólkinu. Hún segir að það séu því farnar að renna tvær grímur á fólk á ljósi þess að hjúkrunarfræðingur bíði nú dóms og margir sjúkraliðar krefjist þess nú að sjúkrastofnanir sýni meiri fagmennsku í lyfjagjöfum.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélagsins.Vísir/Baldur
Mikið kæruleysi með lyf

Hún segist vita til þess að sjúkraliðar hafi neitað að gefa lyf sem aðrir starfsmenn hafi tekið til. Það sé mikið kæruleysi að búa þannig um hnútana að annar starfsmaður sé látinn gefa lyfin en sá sem finni þau til.

Öðru máli gegni þegar tölvustýrðir lyfjaskammtarar séu notaðir og umbúðirnar vandlega merktar. Hún segir að stjórnendur á einhverjum sjúkrastofnunum hafi brugðist við með því að láta ófaglærða gefa lyfin í staðinn.

„Þegar sjúkraliðar eru að taka á þessu með faglega skoðun í huga, þá er bara sendur ófaglærður með lyf sem hann hefur ekki hugmynd um, hver eru, þau eiga að fara til Jóns, en geta alveg eins farið til Gunnars,” segir Kristín Á. Guðmundsdóttir.


Tengdar fréttir

Í lífshættu vegna mistaka í tölvukerfi Landspítala

Hægt hefði verið að koma í veg fyrir lífshættuleg veikindi ungrar stúlku í sumar, ef ekki hefði verið fyrir mistök í skráningum tölvukerfis Landspítala, þar sem gleymdist að láta lækna vita af alvarlegri sýkingu sem hún greindist með. Móðir hennar segir skelfilegt að vita til þess að kerfið á spítalanum sé ekki að virka.

Var í taugaáfalli við yfirheyrslu

Hjúkrunarfræðingur sem er ákærður fyrir manndráp hafði hlaupið á milli margra deilda og gefist lítill tími til að sinna sjúklingi sem lést. Sjálfsásakanir hafi valdið því að hún neitaði ekki sök í fyrstu skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×