Innlent

Kjósa um verkfall í háskólum í desember

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Rúnar Vilhjálmsson prófessor á heilbrigðisvísindasviði HÍ
Rúnar Vilhjálmsson prófessor á heilbrigðisvísindasviði HÍ
Félag prófessora við ríkis­háskóla hefur falið stjórn félagsins að undirbúa atkvæðagreiðslu um boðun tímabundins verkfalls í desember næstkomandi. Þetta var samþykkt á almennum fundi félagsins í gær. Tilgangur með verkfallinu yrði að knýja á um gerð kjarasamnings. Samningar hafa verið lausir frá 1. mars og samningaviðræður staðið yfir frá í febrúar.

Í ályktun fundarins er lýst „mikilli óánægju með tregðu og seinlæti af hálfu ríkisins í samningaviðræðum“.

Í kynningu Rúnars Vilhjálmssonar prófessors á  fundinum kom fram að vinna SALEK-hópsins, sem lauk í vikunni, hafi tafið viðræðurnar.

Hvorki félagið né Bandalag háskólamanna, eigi hins vegar aðild að því samkomulagi. Því ríki óvissuástand um framhaldið, eigi það að vera leiðbeinandi um innihald kjarasamnings við Félag prófessori við ríkisháskóla, líkt og formaður samninganefndar ríkisins hafi sagt við samninganefnd félagsins.

„Það eina sem hefur komið frá samninganefnd ríkisins er tilboðið gamla sem samflotsfélög BHM höfnuðu í sumar,“ sagði Rúnar á félagsfundi FPR í gær.

„Dagljóst er að styrkja þarf samningsstöðu félagsins. Það verður vart gert með öðrum hætti en að boða til atkvæðagreiðslu um aðgerðir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×