Innlent

Lögreglumenn vilja 410 þúsund í grunnlaun

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Lögreglumenn mótmæltu við Stjórnarráðið fyrr í þessum mánuði, en þeir eru afar ósáttir við kjör sín og hvernig miðar í kjaraviðræðum.
Lögreglumenn mótmæltu við Stjórnarráðið fyrr í þessum mánuði, en þeir eru afar ósáttir við kjör sín og hvernig miðar í kjaraviðræðum. visir/pjetur
Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu krefjast þess að nýútskrifaðir lögreglumenn fái að minnsta kosti 410 þúsund krónur í grunnlaun og að aðrir lögreglumenn fái sambærilega launahækkun. Þeir segja að hætta sé á að lögreglumenn segi upp störfum sínum, og að þannig verði stjórnvöld gerð ábyrg fyrir öryggi borgaranna og samfélagsins.

Þetta kemur fram í ályktun Lögreglufélags Reykjavíkur eftir félagsfund sem haldinn var í höfuðstöðvum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag. Félagið skorar á stjórnvöld að standa við áðurgerð loforð um kjarabætur.

„Félagsmenn LR skora á lögreglustjórafélagið og félag yfirlögregluþjóna að standa við og minna á fyrri ályktun sem þeir sendu til fjölmiðla þ.e. að þeir standi við bakið á lögreglumönnum í kjarabaráttu sinni,“ segir í ályktuninni, sem lesa má í heild hér fyrir neðan.

Félagsfundur lögreglumanna haldinn í höfuðstöðvum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu miðvikudaginn 21. október 2015 skorar á stjórnvöld að standa við gert samkomulag frá 1986 um kjarabætur, sem svikið var.

Stjórnvöld leiðrétti strax grunnlaun lögreglumanna í að lágmarkslaun útskrifaðs lögreglumanns frá lögregluskóla ríkisins séu að lágmarki fjögurhundruð og tíuþúsund krónur og sambærileg hækkun verði fyrir aðra lögreglumenn.

Stjórnvöld eru gerð ábyrg fyrir öryggi borgaranna og íslensk samfélags verði laun lögreglumanna ekki leiðrétt. Lögreglumenn kunna að segja sig frá lögreglustarfinu og leita til annarra starfa með tilheyrandi óvissu fyrir réttaröryggi landsins verði laun ekki leiðrétt til fulls strax.

Félagsmenn LR vilja minna stjórnvöld á útkomna skýrslu ríkislögreglustjóra og Vinnueftirlits um mannaflaþörf, nú þegar vantar um 300 lögreglumenn á landsvísu.

Félagsmenn LR skora á lögreglustjórafélagið og félag yfirlögregluþjóna að standa við og minna á fyrri ályktun sem þeir sendu til fjölmiðla þ.e. að þeir standi við bakið á lögreglumönnum í kjarabaráttu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×