Með lögum sem samþykkt voru í júní 2012 var fjármálaráðherra gefin heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Bæði með 8,7 milljarða króna láni úr ríkissjóði fyrir framkvæmdunum og ríkisábyrgð á láninu. Samkvæmt lögum um ríkisábyrgðir hefði ríkisábyrgðasjóður átt að meta tryggingarnar. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að ríkisábyrgðasjóði var ekki falið þetta verkefni.

Þá segir Ríkisendurskoðun að með láninu hafi verið vikið frá þeim skilyrðum fyrir veitingu ríkisábyrgða og endurlána að ábyrgðarþegi, í þessu tilfelli Vaðlaheiðargöng hf., leggi fram að minnsta kosti 20 prósent af heildarfjárþörf verkefnisins og að ábyrgð ríkissjóðs nemi ekki hærra hlutfalli en 75 prósentum.
„Með því að víkja skilyrðunum frá var sú grunnregla laga um ríkisábyrgðir, sem á að fyrirbyggja að ríkissjóður taki of mikla áhættu við ábyrgðarveitingar, gerð óvirk. Slíkt er í andstöðu við það meginmarkmið ríkisábyrgðalaga að lágmarka skuli áhættu ríkissjóðs við veitingu ríkisábyrgða eða endurlána,“ segir í skýrslunni.
Þá segir að litlar líkur séu á, miðað við núverandi aðstæður, að lánið verði endurgreitt að fullu 5. janúar 2018, eins og gert var ráð fyrir í lánasamningi.
Ríkisendurskoðun býst við að kostnaður við verkið fari fram úr áætlun, en engar áætlanir hafi verið gerðar til að bregðast við því. Guðlaugur Þór Þórðarson, 1. varaformaður fjárlaganefndar, segir beðið eftir gögnum um stöðuna. „Meirihluti fjárlaganefndar fór í þetta mál. Við fengum svör við fyrirspurn frá Vaðlaheiðargöngum og okkur var tilkynnt að við fengjum nánari úttekt í haust,“ segir Guðlaugur.