Innlent

Enn deilt í Karphúsinu: „Alveg ljóst að verkfallið mun halda áfram“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Verkfallsfólk hittist við stjórnarráðið á föstudag.
Verkfallsfólk hittist við stjórnarráðið á föstudag.
Samninganefndir SFR stéttarfélags, sjúkraliða og lögreglumanna sitja enn við samningaborðið í húsakynnum ríkissáttasemjara. Fundur hófst um klukkan 13 í dag en bakslag virtist komið í viðræðurnar þegar fréttastofa náði tali af forsvarsmönnum félagsins um kvöldmatarleyti.

Unnið hefur verið að nýrri útfærslu á hugmynd sem ríkið lagði fram á dögunum. Jákvæð teikn voru því á lofti um tíma, en nú virðist langt í land, að sögn Árna Stefáns Jónssonar, formanns SFR.

„Maður varð bjartsýnn í gær og hélt að þetta myndi ganga betur í dag. En því miður, eins og hefur komið fram, þá biðum við eftir nýjum hugmyndum frá ríkinu en það eru hugmyndir sem okkur gengur erfiðlega að kyngja og máta okkur inn í. Menn eru svona svolítið að hugsa upp á nýtt núna,“ sagði Árni í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, tók undir orð Árna. „Það er alveg ljóst að verkfallið mun halda áfram.“

Tímabundið verkfall SFR og Sjúkraliðafélags Íslands á ríkisstofnunum hófst í morgun með tilheyrandi röskun á þjónustu. Áhrifa þess gætir víða, til dæmis á Landspítalanum og í Háskóla Íslands. Félagsmenn félaganna þriggja ætla að fylkja liði í kröfugöngu á morgun, frá Hlemmi klukkan níu í fyrramálið, niður að stjórnarráðinu.

Uppfært klukkan 22.20:

Fundi hefur verið slitið og nýr fundur boðaður klukkan 14 á morugn, að því er segir á vef RÚV.


Tengdar fréttir

Skjótast milli húsa undan verkfallinu

Forsvarsmenn ríkisstofnana vöknuðu upp við vondan draum í gær þegar starfsemi fjölda stofnana nær lamaðist vegna verkfalla SFR og sjúkraliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×